Óvissuástand í Ísrael

Hólmar Örn með treyju Maccabi Haifa.
Hólmar Örn með treyju Maccabi Haifa. Ljósmynd/twitter

Staða Hólmars Arnar Eyjólfssonar, landsliðsmanns í knattspyrnu, hjá ísraelska félaginu Maccabi Haifa virðist í lausu lofti. Hólmar kom til félagsins frá Rosenborg undir lok síðasta árs og skrifaði undir samning til ársins 2021, en nú þegar nýtt tímabil er að hefjast er hann ekki skráður leikmaður félagsins á heimasíðu þess.

Á vefsíðum á borð við Transfermarkt, sem heldur utan um félagaskipti leikmanna, er Hólmar skráður án félags frá og með 1. júlí síðastliðnum. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er Hólmar þó enn leikmaður Haifa og búinn að vera í Ísrael síðustu vikur og mánuði.

Hólmar var keyptur frá Rosenborg í desember í fyrra eftir að hafa orðið norskur meistari með liðinu. Kaupverðið var sagt nema 1,1 milljón evra. Það var Norðmaðurinn Tor-Kristian Karlsen, þáverandi íþróttastjóri Maccabi Haifa, sem fékk Hólmar til félagsins. Hollendingurinn René Meulensteen var þjálfari þess en fékk reisupassann í febrúar.

Núverandi þjálfari virðist ekki hafa í hyggju að nota Hólmar á leiktíðinni sem hefst í næstu viku. Kvóti er á fjölda útlendinga sem hvert félag má hafa í ísraelsku deildinni og mega þeir að hámarki vera sex talsins. Að Hólmari meðtöldum eru þeir núna sex hjá Maccabi Haifa og því þyrfti félagið að skipta honum eða öðrum út til að fá nýjan leikmann utan Ísrael. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur félagið þó sett 800.000 evra verðmiða á Hólmar og óvíst að af sölu verði áður en lokað verður fyrir félagaskipti um mánaðamótin (glugginn í Ísrael lokast 5. september).

Ekki náðist í Hólmar sjálfan við gerð fréttarinnar. sindris@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert