Sara mætir liðinu sem síðast sló út Stjörnuna

Sara Björk Gunnarsdóttir er Þýskalandsmeistari með Wolfsburg.
Sara Björk Gunnarsdóttir er Þýskalandsmeistari með Wolfsburg. Ljósmynd/Facebook

Nú rétt í þessu var dregið í átta liða úrslit og undanúrslit Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu kvenna og eru stórleikir á dagskrá.

Þýska meistaraliðið Wolfsburg, sem Sara Björk Gunnarsdóttir leikur með, dróst gegn Slavia Prag. Tékknesku meistararnir slógu Stjörnuna út í síðustu umferð og því hefðu Sara og Wolfsburg komið hingað til lands ef Stjarnan hefði komist áfram.

Evrópumeistarar Lyon mæta spænska stórliðinu Barcelona. María Þórisdóttir og enska liðið Chelsea mætir Montpellier frá Frakklandi. María og Sara munu svo mætast í undanúrslitum ef lið þeirra komast þangað.

Drættina í átta liða úrslitum og undanúrslitum má sjá hér að neðan.

Átta liða úrslit:

Montpellier – Chelsea
Wolfsburg – Slavia Prag
Manchester City – Linköping
Lyon – Barcelona

Undanúrslit:

Montpellier/Chelsea – Wolfsburg/Slavia Prag
Manchester City/Linköping – Lyon/Barcelona

Leikirnir fara ekki fram fyrr en seint í mars; fyrri viðureignirnar 21. eða 22. mars og sú síðari 28. eða 29. mars. Undanúrslitaleikirnir fara fram á sama tíma í apríl og sjálfur úrslitaleikurinn í Kænugarði 24. maí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert