Heimir þjálfari ársins 2017

Systir Heimis Hallgrímssonar tekur við verðlaununum fyrir hans hönd.
Systir Heimis Hallgrímssonar tekur við verðlaununum fyrir hans hönd. mbl.is/Kristinn Magnússon

Heimir Hallgrímsson þjálfari karlalandsliðs Íslands í knattspyrnu var rétt í þessu útnefndur þjálfari ársins 2017 í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna en hátíðin vegna kjörsins stendur nú yfir í Silfurbergi í Hörpu.

Heimir tók einn við þjálfun landsliðsins að lokinni Evrópukeppninni í Frakklandi 2016, þar sem Ísland komst í átta liða úrslit, en þá höfðu hann og Lars Lagerbäck stýrt liðinu saman í tvö ár. Þar á undan var Heimir aðstoðarþjálfari liðsins í tvö ár, með Lagerbäck sem aðalþjálfara.

Ísland gerði sér lítið fyrir og vann undanriðil heimsmeistarakeppninnar og tryggði sér sæti í lokakeppni HM 2018 í Rússlandi. Liðið vann Kósóvó (tvívegis), Króatíu, Úkraínu og Tyrkland á árinu 2017 og náði efsta sæti riðilsins með glæsilegum lokaspretti.

Ísland er langfámennasta þjóðin sem nokkru sinni hefur komist í lokakeppnina.

Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handknattleik, hafnaði í öðru sæti í kjörinu og Elísabet Gunnarsdóttir, þjálfari sænska knattspyrnuliðsins Kristianstad, hafnaði í þriðja sæti. Heildarniðurstöður verða birtar hér á mbl.is kl. 21.30.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert