Pylsu grýtt að Ara í æsingnum

Ari Freyr Skúlason sækir að Hirving Lozano í tapinu gegn …
Ari Freyr Skúlason sækir að Hirving Lozano í tapinu gegn Mexíkó aðfaranótt laugardags. AFP

Stuðningsmenn Mexíkó voru litríkir og líflegir í stúkunni á vináttulandsleik Íslands og Mexíkó í knattspyrnu á föstudagskvöld. Ari Freyr Skúlason segir frá forvitnilegu atviki undir lok leiksins, í viðtali við fótbolti.net í dag.

Ari segir léttur í bragði að Bratwurst-pylsu hafi verið kastað úr stúkunni nærri sér eftir að upp úr sauð á milli leikmanna liðanna eftir að Miguel Layun sparkaði aftur fyrir sig í Birki Bjarnason.

„Ég fékk þarna eina góða Bratwurst rétt hjá mér þegar Birkir var eitthvað að ibba sig. Hún fór mjög nálægt mér,“ segir Ari léttur við Fótbolta.net. „En mér fannst þetta alveg geggjuð stemning og þetta er það sem maður vill. Fullur völlur og mikil læti,“ segir Ari.

Ísland tapaði leiknum 3:0 en liðið mætir Perú í seinni vináttulandsleik sínum í Bandaríkjaferðinni á miðnætti í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert