Erfiður seinni hálfleikur í öðru tapi

Ísland tapaði öðrum vináttuleik sínum á fjórum dögum er það mætti Perú á Red Bull-vell­in­um í Harri­son í New Jers­ey í nótt. Eftir ágætan fyrri hálfleik voru Perúmenn mun betri í síðari hálfleik og tryggðu sér verðskuldaðan 3:1-sigur.

Það tók Perú aðeins þrjár mínútur að komast yfir, en þá skallaði Renato Tapia boltann í netið af stuttu færi eftir sofandahátt í vörn íslenska liðsins. Á 22. mínútu jafnaði Jón Guðni Fjóluson með föstum skalla eftir fallega hornspyrnu Birkis Bjarnasonar. Fyrsta landsliðsmark Jóns Guðna.

Eftir það fengu Perúmenn nokkur hálffæri en Frederik Schram stóð sig vel í markinu og bjargaði oftar en einu sinni með góðum úthlaupum. Björn Bergmann Sigurðarson fékk besta færi Íslands fyrir hálfleik, en skallinn hans eftir fyrirgjöf Ara Freys Skúlasonar var yfir markið. Staðan í leikhléi var því 1:1.

Sagan var hins vegar önnur í seinni hálfleik og komst íslenska liðið lítið inn í leikinn á móti góðum Perúmönnum. Perú var mikið mun meira með boltann og spilaði honum vel á milli sín. Raúl Ruidíaz nýtti sér það á 58. mínútu er hann skoraði úr þröngu færi eftir skalla Jefferson Farfán. Perú hélt yfirburðum sínum áfram og bætti Farfán sjálfur við marki á 75. mínútu og þar við sat. Niðurstaðan 3:1-tap eftir fínan fyrri hálfleik en slakan síðari hálfleik. 

Ísland 1:3 Perú opna loka
90. mín. Leik lokið Ísland fær aftur á sig þrjú mörk og tapar aftur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert