Stærsta áskorunin á ferlinum

Erik Hamrén sat fyrir svörum í höfuðstöðvum KSÍ í dag.
Erik Hamrén sat fyrir svörum í höfuðstöðvum KSÍ í dag. mbl.is/Valli

Ég hlakka til að vinna með leikmönnunum, starfsfólki KSÍ, stuðningsmönnum íslenska landsliðsins, fjölmiðlamönnum og auðvitað Tólfunni. Ég hef verið þjálfari í 35 ár og þetta verður mín stærsta áskorun á ferlinum,“ sagði Erik Hamrén, nýráðinn þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, á blaðamannafundi KSÍ í Laugardalnum í dag þar sem að Hamrén var formlega kynntur.

Hamrén tekur við liðinu af Heimi Hallgrímsson sem tilkynnti það í síðasta mánuði að hann væri hættur með liðið. Freyr Alexandersson mun aðstoða Hamrén en Freyr er þjálfari íslenska kvennalandsliðsins.

Góður grunnur til að byggja á

„Allur heimurinn hefur hrifist af íslenska landsliðinu undanfarin ár. Heimir og Lars hafa byggt góðan grunn fyrir mig til þess að taka við liðinu. Þegar ég tek við nýju liði er mikilvægt fyrir mig að breyta ekki hlutunum of mikið og það er eitt af því sem ég ætla mér að gera með íslenska liðið. Það sem skiptir mestu máli fyrir mig sem þjálfara, er viðhorf leikmanna, og leikmenn íslenska liðsins hafa það svo sannarlega. Knattspyrna snýst um liðsheild enda liðsíþrótt og það er svo sannarlega til staðar hjá íslenska landsliðinu. Ég hlakka mikið til að vinna með Frey, ég hef ekki þekkt hann lengi, en hann hefur brennandi ástríðu á knattspyrnu.“

Erik Hamrén var umdeildur hjá sumum blaðamönnum í Svíþjóð á …
Erik Hamrén var umdeildur hjá sumum blaðamönnum í Svíþjóð á sínum tíma. AFP

Hamrén var spurður út í það á fundinum hvort hann myndi halda góðu sambandi við íslenska fjölmiðla, líkt og Heimir og Lars hafa gert í gegnum tíðina, en Hamrén hefur verið talsvert gagnrýndur í heimalandi sínu í gegnum tíðina.

Ekki allir hrifnir af mér

„Ég vil eiga gott samband við íslenska fjölmiðla, líkt og í Svíþjóð. Það voru hins vegar ákveðnir blaðamenn í Svíþjóð sem voru ekki hrifnir af mér en þannig er það stundum. Lars átti heldur ekki alltaf gott samband við blaðamenn í Svíþjóð og pressan þar í landi mætti stundum gera hlutina öðruvísi líka.“

Þá var sænski þjálfarinn spurður að því hvort hann myndi breyta miklu með komu sinni en íslenska liðið hefur lagt mikla áherslu á bæði liðsheild og góðan varnarleik á undanförnum árum.

Erik Hamrén stýrði sænska landsliðinu í knattspyrnu á árunum 2009-2016.
Erik Hamrén stýrði sænska landsliðinu í knattspyrnu á árunum 2009-2016. AFP

Snýst um að ná í úrslit

„Það er hellingur af hlutum sem hægt er að bæta í íslenska liðinu, þrátt fyrir að liðið hafi verið frábært á undanförnum árum. Það þarf alltaf að vinna í ákveðnum hlutum og ég mun halda áfram að vinna í þeim. Ég fæ nokkra daga til þess að vinna með liðið fyrir leikina í Þjóðadeildinni en þannig er það alltaf með landslið og ég er vanur því. Þegar allt kemur til alls snýst þetta um að ná í úrslit og það er stærsta markmiðið mitt hér,“ sagði Hamrén enn fremur í Laugardalnum í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert