Grét og gat varla talað í leikslok

Mauricio Pochettino í miðjum fagnaðarlátum Tottenham í leikslok í kvöld.
Mauricio Pochettino í miðjum fagnaðarlátum Tottenham í leikslok í kvöld. AFP

Geðshræringin var mikil hjá Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóra Tottenham, eftir að liðið tryggði sér sæti í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í fyrsta sinn í sögunni með ótrúlegum sigri á Ajax í undanúrslitum í kvöld, 3:2, þar sem sigurmarkið kom á lokasekúndu uppbótartímans.

„Það er erfitt að tala. Tilfinningin er ótrúleg, bestu þakkir til fótboltans. Svona tilfinningar eru ekki mögulegar án hans. Leikmennirnir mínír eru hetjur. Þakkir til allra sem trúðu á okkur. Það er erfitt að koma þessu í orð,“ sagði Pochettino í sæluvímu eftir leikinn.

„Við sýndum að við elskum þessa íþrótt. Það eru forréttindi fyrir mig að hafa fengið að horfa á þennan leik. Það er erfitt að keppa á þessu stigi og ég er svo þakklátur að vera þjálfari hér. Að vera á þessum stað í fótboltaheiminum,“ sagði Pochettino.

Ajax var 2:0 yfir í hálfleik og þurfti Tottenham þrjú mörk eftir hlé til að komast áfram. Lucas Moura skoraði þau öll.

„Leikmennirnir eru allir hetjur, en hann var ofurhetja!“ sagði hann áður en tárin fóru að renna.

„Ég vil minnast á fjölskylduna mína. Þetta eru ótrúleg verðlaun fyrir hana líka,“ sagði Pochettino í engu andlegu jafnvægi af gleði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert