Þjarmað að Þjóðarsleggjunni

Robert Lewandowski hefur farið hamförum í vetur.
Robert Lewandowski hefur farið hamförum í vetur. AFP

49 ára gamalt markamet Gerds Müllers gæti fallið í Búndeslígunni um helgina þegar Robert Lewandowski leikur með Bayern München gegn Freiburg. Pólverjinn hefur verið í lygilegum ham með Bæjurum undanfarin ár, einkum þau tvö síðustu, og vex enn og dafnar á velli, að verða 33 ára. 

Þegar Þjóðarsleggjan sjálf (þ. Bomber der Nation) gerði sitt fertugasta mark fyrir Bayern München í Búndeslígunni á einu og sama tímabilinu horfðu fremstu sparkskýrendur þessa heims hver á annan, klóruðu sér bak við hægra eyrað og sammæltust um að slíkt afrek yrði aldrei unnið aftur. Ég meina, leikirnir voru bara 34. Og ekki til siðs að framlengja, fremur en endranær í deildarleikjum. Við erum vitaskuld að tala um goðsögnina Gerd Müller eða Gerði í Múla, eins og við getum kinnroðalaust kallað kappann eftir að mörkin milli nafna kvenna og karla voru máð út hér um slóðir. Ekki satt, Sigríður bóndi?

Á þeim 49 árum sem síðan eru liðin hefur ekki þótt ástæða til að rengja hið faglega mat sparkskýrendanna – þar til nú. Sú ótrúlega staða er nefnilega komin upp í Búndeslígunni að Pólverjinn Robert Lewandowski, eða Róbert Lifandisósköp, eins og Djúpmenn kalla hann í daglegu tali, er búinn að gera 39 mörk fyrir Bæjara á leiktíðinni sem er að ljúka, í aðeins 27 leikjum. Segi ég og skrifa, eins og Samúel Örn forðum. Og enn eru tveir leikir óleiknir. Sá fyrri er gegn Freiburg á útivelli í dag, laugardag, og líkurnar á því að met Müllers falli eða verði að minnsta kosti jafnað eru yfirgnæfandi. Slík hefur siglingin á Pólverjanum verið á leiktíðinni. Nú og gangi rófan ekki um helgina þá er lokaleikurinn gegn Alfreð Finnbogasyni og félögum í Augsburg í öllu falli eftir.

Raunar óttuðust margir að draumurinn um að slá metið væri úti þegar Lewandowski meiddist í landsleik undir lok mars en hann sneri aftur fjórum vikum síðar og tók þegar í stað til óspilltra málanna; gerði til að mynda þrennu í 6:0-sigri á Borussia Mönchengladbach um liðna helgi. Þá fjórtándu í Búndeslígunni á ferlinum.

Þjóðarsleggjan Gerd Müller fagnar marki.
Þjóðarsleggjan Gerd Müller fagnar marki. Colorsport / Mike Wall


Farið fram eftir þrítugt

Það eru ekki ný tíðindi að Robert Lewandowski skori mörk; það hefur hann gert í akkorði undanfarinn áratug en það merkilega er að honum hefur farið fram eftir þrítugt, þegar alla jafna hægist á sparkendum. Hann náði þeim ótrúlega áfanga í fyrsta skipti í fyrra, þá 31 árs, að skora meira en mark í leik fyrir Bæjara, samtals 55 mörk í 47 leikjum. Þá voru deildarmörkin 34 sem var persónulegt met. Það er nú fallið og ljóst að Pólverjinn mun endurtaka leikinn, það er skora meira en mark í leik í vetur. Er þegar kominn með 46 mörk í aðeins 38 leikjum.

Hver hefði trúað því að maður yrði að skrifa þessi orð árið 2021; ekki sparkskýrendurnir frá 1972, ef þeir eru þá enn þá meðal vor. Í öllu falli hljóta þeir að sprikla af eftirvæntingu í gröfum sínum.

Óhætt er að fullyrða að ferill Lewandowskis hafi ekki farið af stað með sama lúðrablæstri og ferill Lionels Messis eða Cristianos Ronaldos. Hann sleit sínum fyrstu fullorðinstakkaskóm hjá Delta Varsjá í fásinninu í fjórðu deild í Póllandi veturinn 2004-05, þá aðeins sextán ára. Gerði fjögur mörk í 19 leikjum. Þaðan lá leiðin í aðeins kunnari klúbb, Legia Varsjá, þar sem pilturinn lék með B-liðinu í þriðju deild. Þá komu tvö ár hjá Znicz Pruszków, fyrst í þriðju og síðan annarri deild, þar sem okkar maður rauf 20 marka múrinn í fyrsta skipti. Znicz Pruszków er mergjað nafn á liði og ótrúlegt að nokkur maður geti hugsað sér að yfirgefa það en Lewandowski sá þó sæng sína upp reidda og færði sig yfir til stórliðs Lech Poznan í efstu deild sem heitir víst Ekstraklasa á móðurmálinu. Vissuð þið það? Hljómar samt svolítið eins og sænskur stórmarkaður, þar sem gott úrval er af fersku grænmeti. En það er önnur saga.

Kloppaður upp

Eftir að hafa gert 41 mark á tveimur tímabilum fyrir Lech þótti tímabært að kappinn, sem þá var orðinn 22 ára, færði sig yfir til Þýskalands og spreytti sig gegn sterkari vörnum. Borussia Dortmund hreppti hnossið, þar sem enginn annar en Jürgen Klopp réð ríkjum. Hafi menn búist við flugeldasýningu í fyrstu atrennu varð þeim ekki kápan úr því klæðinu; Lewandowski lét níu mörk í 43 leikjum í öllum keppnum duga. Svo brast stíflan, ef stíflu skyldi kalla, næstu þrjú tímabilin gerði hann 94 mörk í öllum keppnum fyrir Dortmund, mest 24 í Búndeslígunni, 2012-13.

Risinn í München gat að vonum ekki látið það viðgangast og leysti leikmanninn því til sín sumarið 2014. Hann var til þess að gera rólegur fyrsta veturinn; gerði „ekki nema“ 25 mörk á öllum mótum. Svo kynntist hann samherjunum aðeins betur og fór á sporbaug um jörðu. Haldið ykkur nú fast meðan nýjustu tölur úr Hádegismóum verða lesnar upp – 42, 43, 41, 40, 55 og alla vega 46. Við erum að tala um mörk á öllum mótum. Og mótin fyrir utan Búndeslíguna eru engin Bautamót með amatörum, heldur sjálfur þjóðarbikarinn og Meistaradeild Evrópu. Á þeim vettvangi gerði Lewandowski til dæmis 15 mörk í 10 leikjum í fyrra. Ha, hætti ég nú alveg? Nei, þetta er dagsatt. Flettið þessu bara upp í opinberum skjölum hjá UEFA!

Við þetta má bæta að Lewandowski hefur gert 66 mörk í 118 landsleikjum fyrir Pólland.

Lionel Messi hefur staðið í skugga Lewandowskis seinustu tvö árin.
Lionel Messi hefur staðið í skugga Lewandowskis seinustu tvö árin. AFP


Farinn að skáka viðundrum

Hafandi séð þessar ótrúlegu tölur hlýtur maður að blaða í sambærilegum gögnum er varða Lionel Messi og Cristiano Ronaldo, fremstu sparkendur sinnar kynslóðar í heiminum og mögulega sögunnar frá upphafi. Tökum þann slag við Pelunga og Maradonnur þessa lands við annað tækifæri. En alltént. Í tíu ára samhengi fer Lewandowski halloka; mörkin hans 386 á þeim tíma duga skammt gegn 463 mörkum hjá Ronaldo og 491 hjá Messi. En á tveimur síðustu árum hefur okkar maður á hinn bóginn skilið þau viðundur eftir í reykmekki; er með 101 mark á móti „aðeins“ 72 hjá Ronaldo og 68 hjá Messi. Sem er afar athyglisvert. Ronaldo fæddist 1985 en Messi 1987.

En hvernig stenst Lewandowski samanburð við Þjóðarsleggjuna? Hann hefur gert 292 mörk í 327 leikjum fyrir Bæjara og samtals 482 mörk í 694 leikjum fyrir öll sín félagslið. Müller gerði á hinn bóginn 563 mörk í 605 leikjum í öllum keppnum á fimmtán tímabilum hjá Bayern og alls 654 mörk í 716 leikjum með félagsliðum á ferlinum. Og svo 68 mörk í aðeins 62 landsleikjum fyrir Vestur-Þýskaland. Pælið í því!

Müller myndi vilja og skilja

Lewandowski á því enn þá nokkuð í land en góðu fréttirnar eru þær að hann er hvergi nærri hættur. Ætlar að reynast slitgóður á velli eins og erkikempur á borð við Messi og Ronaldo, að ekki sé talað um Zlatan Ibrahimovic sem fór á fáheyrt flug eftir þrítugt og er enn að hrella markverði, að verða fertugur.

Hansi Flick, fráfarandi sparkstjóri Bæjara, staðfesti á dögunum við AFP-fréttaveituna að það væri einbeittur vilji Lewandowskis að slá Búndeslígumetið. Hann ætti það skilið enda byggi hann yfir einstökum hæfileikum og væri leikmaður á heimsmælikvarða. Það þurfti svo sem ekki slíkan sérfræðing til að segja okkur það.

Sjálfur sagði Lewandowski við Sport Bild fyrir skemmstu að kominn væri tími til að slá met hins 75 ára gamla Müllers sem því miður mun líklega ekki verða mikið var við það enda hefur hann glímt við elliglöp í seinni tíð. „Slái ég metið myndi Gerd Müller vilja og skilja það.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert