„Sonur minn hefur beitt konur ofbeldi í áraraðir“

Jerome Boateng.
Jerome Boateng. AFP

Martina Boateng, móðir þýska knattspyrnumannsins Jerome Boateng, segir son sinn hafa beitt konur andlegu og líkamlegu ofbeldi um langt árabil.

Boateng var í september árið 2021 fundinn sekur um að ráðast á og móðga kærustu sína, Kasiu Lenhardt, þegar þau voru í fríi á Karíbahafinu árið 2016.

Fyrirsætan Lenhardt skráði hjá sér ofbeldi Boatengs í sinn garð allt frá árinu 2019, þar sem hún greindi til að mynda frá brotnum þumalfingrum og tíðum marblettum á líkama sínum. Féll Lenhardt fyrir eigin hendi í febrúar árið 2021.

„Sonur minn hefur beitt konur andlegu og líkamlegu ofbeldi í áraraðir. Núna er Kasia Lenhardt búin að taka eigið líf og hann vill ekki enn horfast í augu við afleiðingar eigin gjörða,“ skrifaði Martina Boateng í bréfi til lögfræðings í Berlín í mars árið 2021.

Mætir aftur fyrir rétt

Í september síðastliðnum var dóm Boatengs fyrir líkamsárás snúið við vegna galla við málsmeðferð. Mætir hann hins vegar aftur fyrir rétt þann 14. júní næstkomandi vegna nýrra sönnunargagna sem hafa komið upp á yfirborðið.

Þýska fréttablaðið Spiegel hefur rannsakað málið grannt og afhjúpað sönnunargögn sem þykja sýna fram á áralangt ofbeldi Boatengs í garð Lenhardt.

Rannsókn á síma hennar og löng og ítarleg hljóðskilaboð þykja renna stoðum undir ásakanir Lenhardts um ofbeldi. Hugðist hún leggja fram kæru vegna líkamsárásar Boatengs skömmu áður en Lenhardt lést.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert