Ég var frekar pirraður

Jóhann Berg Guðmundsson í baráttu við Belgann Jeremy Doku hjá …
Jóhann Berg Guðmundsson í baráttu við Belgann Jeremy Doku hjá Manchester City. AFP/Darren Staples

Jóhann Berg Guðmundsson, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, segir að Burnley sé alls ekki búið að gefa upp vonina um að halda sæti sínu í ensku úrvalsdeildinni þrátt fyrir erfiðan vetur.

Burnley kom aftur upp eftir eins árs fjarveru, vann B-deildina með yfirburðum í fyrra, en hefur verið í miklu basli í vetur og er næstneðst með 17 stig, fimm stigum frá því að komast úr fallsæti.

„Ég hélt að þetta yrði ekki svona erfitt en þegar maður lítur til baka þá urðu miklar breytingar á liðinu frá síðasta tímabili. Þá var byggt upp lið sem rúllaði upp B-deildinni. Þá vorum við með marga leikmenn í láni, sem komu ekki aftur, og þá þurfti að fylla í þeirra stöður," sagði Jóhann þegar mbl.is ræddi við hann á hóteli landsliðsins í Búdapest í gær.

Spilum frekar flókinn fótbolta

„Við viljum spila frekar flókinn fótbolta, erum mikið með boltann, gjörólíkt Burnley-liðinu sem var áður, og í fyrra var gríðarlega gaman að spila svona. Við vorum mikið með boltann og allir vissu hvernig við vildum spila. Svo komu einir tíu leikmenn nýir í liðið þegar við vorum komnir aftur í úrvalsdeildina og það er ansi mikið. Það er erfitt að læra eitthvað nýtt þegar þangað er komið og það hefur klárlega ekki hjálpað okkur," sagði Jóhann.

Jóhann Berg Guðmundsson reynir að komast framhjá pólska bakverðinum Jakub …
Jóhann Berg Guðmundsson reynir að komast framhjá pólska bakverðinum Jakub Kiwior hjá Arsenal. AFP/Andy Buchanan

„En, við erum ennþá í séns, ótrúlegt en satt, ekki síst vegna þess að það hafa verið tekin stig af liðunum fyrir ofan okkur. Við tökum því klárlega fagnandi en við unnum þó síðasta leik og vonandi náum við að byggja ofan á það.

Við munum ekki gefast upp fyrr en allt er orðið ómögulegt, en auðvitað er þetta búið að vera gríðarlega erfitt. Ekki síður fyrir þjálfarann (Vincent Kompany) sem hefur aldrei lent í svona áður eftir að hafa verið vanur að vinna alls staðar þar sem hann hefur verið. Þetta hefur því verið lærdómsríkt fyrir hann. En við erum ennþá í úrvalsdeildinni og vonandi getum við haldið okkur uppi," sagði landsliðsfyrirliðinn.

Alltaf óánægður þegar maður spilar ekki

Jóhann hefur leikið 20 af 29 leikjum Burnley, þar af 12 í byrjunarliði, og viðurkenndi fúslega að hann hefði viljað hafa þá fleiri.

„Ég var frekar pirraður í byrjun tímabils yfir því að vera ekki í liðinu en hann áttaði sig fljótlega á því að best væri setja mig aftur inn! Síðan, eins og undanfarin ár, hafa komið upp meiðsli hér og þar sem hafa kostað mig leiki, og síðustu vikur hef ég lítið spilað. Það er ég að sjálfsögðu ekki nógu ánægður með - leikmenn sem ekki spila eru alltaf óánægðir og ég er engin undantekning frá því.

En svona er þetta, þetta er gríðarlega efnilegt lið og mikil samkeppni um stöður. Ég tel mig samt eiga að vera í liðinu og geri allt sem ég þarf til að komast aftur inn. Það hef ég vanalega gert og geri það vonandi fljótlega aftur," sagði Jóhann en níu leikjum er ólokið í deildinni á tímabilinu.

Kannski prófar maður eitthvað annað

Samningur Jóhanns við Burnley rennur út í sumar. „En þeir geta framlengt samninginn um eitt ár. Þetta er áttunda árið mitt hjá Burnley og það verður bara að koma í ljós hvað verður rétt að gera fyrir mig og mína fjölskyldu. Kannski prófar maður eitthvað annað í lokin og sér hvað gerist en það er erfitt að segja til um það núna. Ég einbeiti mér að þessu verkefni og svo sjáum við til hvað gerist með Burnley."

Þú ert ekkert á leið heim til Íslands, eða hvað?

„Nei, ég ætla ekki að fara þangað strax. Ég tel mig eiga eitthvað eftir á atvinnuferlinum, ég hef bara verið í þremur liðum allan minn feril og við sjáum til hvort ég bæti einhverju við það," sagði Jóhann Berg Guðmundsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert