Síðast mættu 39 þúsund í Wroclaw

Úkraínska liðið með stuðningsfólk sitt í baksýn eftir sigurinn á …
Úkraínska liðið með stuðningsfólk sitt í baksýn eftir sigurinn á Bosníu, 2:1, í Zenica á fimmtudagskvöldið. AFP/Elvis Barukcic

Úkraínumenn leika sinn annan heimaleik á Tarczynski-leikvanginum í pólsku borginni Wroclaw þegar þeir mæta Íslendingum í úrslitaleiknum um sæti í lokakeppni EM 2024.

Þeir léku einnig á þessum velli þegar þeir gerðu jafntefli, 1:1, við Englendinga í undankeppni EM á síðasta ári. Þann leik sáu 39 þúsund áhorfendur en völlurinn er skráður fyrir rúmlega 43 þúsund áhorfendur.

Fjórir heimaleikir Úkraínu í þeirri keppni fóru fram í jafnmörgum löndum en hinir þrír voru leiknir í Trnava í Slóvakíu, Prag í Tékklandi og Leverkusen í Þýskalandi.

Frá því Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúar 2022 hafa samt flestir heimaleikir Úkraínumanna farið fram í Póllandi því þeir léku þar alla þrjá heimaleikina í Þjóðadeildinni það ár, tvo í Lodz og einn í Kraká.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert