Úkraína endurheimtir sterkan leikmann

Viktor Tsyhankov fagnar marki í leik með Girona í síðasta …
Viktor Tsyhankov fagnar marki í leik með Girona í síðasta mánuði. AFP/Lluis Gene

Viktor Tsyhankov, leikmaður Girona á Spáni, er kominn í hóp Úkraínumanna fyrir leikinn gegn Íslandi í Wroclaw í Póllandi á þriðjudagskvöldið.

Tsyhankov er 26 ára miðjumaður sem lék sinn 50. landsleik þegar Úkraína gerði jafntefli við Ítalíu, 0:0, í undankeppni EM í nóvember en missti af leik liðsins við Bosníu á fimmtudaginn vegna meiðsla í hné.

Hann æfði með úkraínska liðinu í Póllandi í gær og það má því búast við því að hann spili gegn Íslandi.

Tsyhankov hefur leikið 42 leiki með Girona í spænsku 1. deildinni síðan hann kom til liðsins fyrir síðasta tímabil, frá Dynamo Kiev, og skorað í þeim 9 mörk en Girona hefur öllum að óvörum verið í baráttu um spænska meistaratitilinn í vetur.

Þar með á Girona tvo leikmenn í úkraínska hópnum en aðalmarkaskorari liðsins, Artem Dovbyk, sem skoraði sigurmarkið gegn Bosníu á fimmtudaginn, er fimmti markahæsti leikmaður spænsku deildarinnar í vetur með 14 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert