Úkraínumenn æfðu vítaspyrnur

Vítaspyrna í lok æfingar Úkraínumanna í dag.
Vítaspyrna í lok æfingar Úkraínumanna í dag. Ljósmynd/UAF

Úkraínumenn eru viðbúnir því að fara í vítaspyrnukeppni gegn Íslendingum í Wroclaw á þriðjudagskvöldið því þeir æfðu vítaspyrnur á æfingu sinni í Póllandi í dag.

Úkraínska liðið hefur frá því á föstudag dvalið í pólska bænum Opalenica, um tveggja tíma akstur frá Wroclaw, en í fyrramálið flytja þeir sig nær keppnisstaðnum og dvelja í bænum Tshebnytsia, skammt frá Wroclaw. Þar héldu þeir líka til þegar þeir mættu Englendingum í undankeppni EM í Wroclaw í september og liðin skildu jöfn, 1:1.

Á heimasíðu úkraínska knattspyrnusambandsins er sagt frá æfingu dagsins og þar kemur fram að henni hefði lokið með því að leikmennirnir æfðu sig að taka vítaspyrnur.

Til þeirra þarf að grípa í úrslitaleik þjóðanna um sæti á EM karla 2024 ef staðan verður jöfn eftir framlengingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert