Hneyksli að sleppa Alves úr fangelsi

Dani Alves er frjáls ferða sinna, að minnsta kosti á …
Dani Alves er frjáls ferða sinna, að minnsta kosti á meðan áfrýjunarferli í máli hans stendur. AFP/Lluis Gene

Brasilíska knattspyrnumanninum Dani Alves hefur verið sleppt lausum úr fangelsi í Barcelona eftir að trygging upp á eina milljón evra, tæplega 150 milljónir íslenskra króna, var greidd.

Alves var í síðasta mánuði dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrir að nauðga konu á skemmtistað í Barcelona undir lok árs 2022 og hefur verið í fangelsi frá því í janúar árið 2023.

Brasilíumaðurinn áfrýjaði dómnum og þar sem búið er að greiða tryggingu verður hann laus úr haldi á meðan áfrýjunarferlinu stendur.

Réttarkerfi fyrir þá ríku

Lögmaður fórnarlambs Alves, Ester García, er afskaplega ósátt við ákvörðun dómstólsins í Barcelona að sleppa honum úr haldi gegn tryggingu.

„Fyrir mér það hneyksli að þau sleppi manneskju lausri sem þau vita að geti safnað einni milljón evra á svipstundu.

Ég er hneyksluð og ósátt með þennan úrskurð. Þetta er réttarkefi fyrir þá ríku og við munum áfrýja þessum úrskurði,“ sagði García við spænsku útvarpsstöðina RAC1 í síðustu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert