Lék á Englandi og gengur vel hjá Úkraínu

Serhiy Rebrov á æfingu úkraínska landsliðsins.
Serhiy Rebrov á æfingu úkraínska landsliðsins. Ljósmynd/UAF

Serhiy Rebrov, þjálfari karlalandsliðs Úkraínu, sem mætir Íslandi í úrslitaleik EM-umspilsins í Wroclaw annað kvöld, á að baki langan feril í fótboltanum og lék meðal annars í fimm ár í ensku úrvalsdeildinni.

Rebrov, sem er 49 ára gamall og lék sem kantmaður eða framherji, var leikmaður Tottenham á árunum 2000 til 2004 en var reyndar í láni hjá Fenerbahce í Tyrklandi hluta tímans. Hann spilaði síðan með West Ham tímabilið 2004-2005. 

Rebrov skoraði 11 mörk í 87 leikjum í ensku úrvalsdeildinni en samtals skoraði hann 145 mörk í 425 deildaleikjum í Úkraínu, á Englandi, í Tyrklandi og Rússlandi. Þá skoraði hann 15 mörk í 75 landsleikjum með Úkraínu.

Stærsta hluta ferilsins lék Rebrov með Dynamo Kiev og hann hélt áfram þar við þjálfun eftir að hann lagði skóna á hilluna árið 2009. Þar var hann aðalþjálfari á árunum 2014 til 2017. Eftir það fór Rebrov til Sádi-Arabíu í eitt ár, þjálfaði Ferencváros í Ungverjalandi í þrjú ár, var í tvö ár í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og tók við þjálfun úkraínska landsliðsins í júní á síðasta ári.

Eitt tap í níu leikjum

Úkraína hefur aðeins tapað einu sinni í níu leikjum frá því Rebrov tók við en það var naumur ósigur á Ítalíu, 2:1. Liðið hefur gert jafntefli við England, 1:1, og Ítalíu, 0:0, einnig við Þýskaland, 3:3, í vináttuleik, og sigrað Möltu tvisvar, Norður-Makedóníu tvisvar, ásamt því að vinna Bosníu í umspilsleiknum í Zenica á fimmtudagskvöldið var, 2:1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert