Mundi ekki eftir markinu sínu gegn Íslandi

Serhiy Rebrov ræðir við fréttamenn á fundinum í Wroclaw í …
Serhiy Rebrov ræðir við fréttamenn á fundinum í Wroclaw í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

Serhiy Rebrov, þjálfari úkraínska karlalandsliðsins í fótbolta og fyrrverandi leikmaður Tottenham og West Ham, segir að Ísland verði mjög erfiður andstæðingur í úrslitaleiknum um EM-sætið í Wroclaw annað kvöld.

Hann var spurður á fréttamannafundi Úkraínu fyrir æfingu liðsins í kvöld hver væri mesta hættan varðandi íslenska liðið.

„Þetta er sterkt lið með leikmenn í háum gæðaflokki. Við erum vel meðvitaðir um hversu sterkir andstæðingar þetta eru. En ég hef fulla trú á mínum leikmönnum og við verðum að nýta okkar bestu hæfileika í leiknum," svaraði Rebrov.

Hann skoraði gegn Íslandi þegar liðin mættust í tveimur hörkuleikjum í undankeppni EM árið 1999 en kvaðst ekkert muna eftir því.

„Ég las að ég hefði skorað gegn Íslandi en ég man ekkert eftir því marki. En Ísland hefur bætt miklu við sig frá þeim tíma. Þeir tóku mjög stórt skref hvað varðar agaðan fótbolta. Ég hef líka lesið mikið um Íslendinga sem hafa komið upp mörgum knattspyrnuskólum og fótboltavöllum í sínu fámenna landi. Þetta er gjörbreytt lið frá því ég spilaði gegn þeim," svaraði Rebrov. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert