Ísland erfiðari mótherji en Bosnía

Andriy Lunin ver í leik með Real Madrid gegn Celta …
Andriy Lunin ver í leik með Real Madrid gegn Celta Vigo fyrr í þessum mánuði. AFP/Pierre-Philippe Marcou

Andriy Lunin, markvörður úkraínska landsliðsins í knattspyrnu og spænska stórveldisins Real Madrid, segir að Úkraína eigi fyrir höndum mun erfiðari leik gegn Íslandi í kvöld en gegn Bosníu í undanúrslitum umspilsins á fimmtudaginn.

Úkraína var þó í gríðarlegum vandræðum með lið Bosníu en tryggði sér sigur í Zenica, 2:1, með tveimur mörkum á lokamínútum leiksins.

„Þetta hefur allt gengið vel og við höfum prófað völlinn. Grasið er í meðallagi en þannig er það á þessum árstíma. Það er mikill baráttuhugur í liðinu, annað er ekki hægt. Við erum að fara í úrslitaleik. Þá þarf að undirbúa sig eins vel og mögulegt er og leggja allt í sölurnar,“ segir Lunin í viðtali á heimasíðu úkraínska knattspyrnusambandsins.

„Ísland er mikið erfiðari andstæðingur en Bosnía því þetta er mjög vel skipulagt lið og sennilega enn kraftmeira. Ég tel að það sé líka aðeins reyndara. Þetta verður harðari og erfiðari leikur, meira krefjandi. En það þurfum við að yfirstíga. Til að komast á EM þarf að vinna svona leiki,“ sagði markvörðurinn sem hefur varið mark Real Madrid í 17 leikjum í spænsku 1. deildinni á þessu tímabili og alls í 40 leikjum á þremur árum.

Lunin segir að stríðsástandið í Úkraínu hafi áhrif á leikmenn liðsins á hverjum degi. „Þegar þú ert á leið á æfingu dynja alls konar fréttir yfir þig. Þetta er ekki erfiðara fyrir okkur en fólkið heima í Úkraínu en hefur sín áhrif. Við munum gera allt sem við getum til að gera fólkið okkar ánægt. Þetta er lítið framlag en mikilvægt,“ segir Andriy Lunin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert