Skulda Hollywood-stjörnunum 1,6 milljarða

Ryan Reynolds og Rob McElhenney, eigendur Wrexham AFC.
Ryan Reynolds og Rob McElhenney, eigendur Wrexham AFC. Ljósmynd/Wrexham

Velska knattspyrnufélagið Wrexham skuldar eigendum sínum, Hollywood-stjörnunum Ryan Reynolds og Rob McElhenney, fúlgur fjár.

Reynolds og McElhenney eiga inni rétt tæplega níu milljónir punda, tæplega 1,6 milljarða íslenskra króna, hjá Wrexham samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2022.

Þeir félagar tóku félagið yfir í febrúar árið 2021 og hafa dælt háum fjárhæðum í karlaliðið, sem fór upp úr E-deildinni á síðasta tímabili og á í harðri baráttu í D-deildinni um að fara upp um aðra deild á jafnmörgum árum.

Tapið talið nauðsynlegt

„Það fjárhagslega tjón sem félagið hefur mátt þola eftir yfirtökuna ætti ekki að endurtaka sig þar sem þær tekjur sem félagið aflar nú nægja til þess að standa straum af rekstrarkostnaði félagsins í framtíðinni.

Þetta fjárhagslega tap var talið nauðsynlegt til þess að gera félaginu kleift að hámarka möguleika sína á því að ná sem lengst á sem skemmstum tíma.

Félagið er ekki undir tafarlausum þrýstingi að endurgreiða þessi lán á kostnað þeirra framfara sem við leitumst við að ná fram og frekari fjárhagslegur stuðningur verður veittur/tryggður til að styðja við félagið í þeim fjárfestingarverkefnum sem það er að skipuleggja, þar á meðal stækkun Racecourse-leikvangsins og uppbyggingu æfingaaðstöðu fyrir öll lið félagsins,“ sagði í tilkynningu frá Wrexham.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert