Tekur skóna af hillunni 58 ára gamall

Romário fagnar marki í leik með brasilíska landsliðinu.
Romário fagnar marki í leik með brasilíska landsliðinu. AFP/Vanderlei Almeida

Romário, fyrrverandi heimsmeistari í knattspyrnu með Brasilíu, hefur ákveðið að taka skóna af hillunni, 58 ára að aldri, til þess að spila með syni sínum Romarinho.

Romário er búinn að fá leikheimild til þess að spila með America Football Club, sem leikur í B-deild svæðiskeppni Ríó de Janeiro.

Í tilkynningu á Instagramaðgangi sínum kvaðst sóknarmaðurinn fyrrverandi, sem er forseti America Football Club, ekki ætla að spila í deildinni en að hann vildi koma við sögu í einhverjum leikjum við hlið sonar síns í öðrum keppnum.

Romário spilaði síðast keppnisleik í nóvember árið 2009. Á ferlinum skoraði hann 55 mörk í 70 landsleikjum fyrir Brasilíu og var kjörinn leikmaður ársins 1994 af FIFA eftir að hann skoraði fimm mörk á HM 1994, sem Brasilía vann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert