Örn Arnarson sundmaður fékk A-styrk á nýjan leik

Styrkveitingar ÍSÍ að þessu sinni nema samtals rúmlega 63 milljónum króna en úthlutað er kr. 47.820 þús. úr Afrekssjóði og 9.200 þús. úr sjóði ungra og efnilegra íþróttamanna en tilkynnt var um úthlutunina í hádeginu. Örn Arnarson sundmaður kemur inn á A-styrk, sem er 160.000 kr. á mánuði, en hann fékk eingreiðslustyrk á síðasta ári. Handknattleikssamband Íslands fékk hæst einstaka styrkinn, 6,5 milljónir króna til undirbúnings landsliðsins fyrir heimsmeistaramótið í handknattleik karla sem hefst eftir rúma viku í Þýskalandi.

Jóhann Rúnar Kristjánsson, borðtennismaður úr röðum fatlaðra, er færður upp í B-styrk en þar bætist einnig í hóp styrkþega Baldur Ævar Baldursson frjálsíþróttamaður úr röðum fatlaðra. Nokkrir einstaklingar sem hafa verið á eingreiðslustyrkjum undanfarin ár eru nú færðir upp í C-styrk en nokkrir þeirra leggja áherslu á að ná að tryggja sér á þessu ári keppnisrétt á næstu Ólympíuleikum. Þetta eru þau Guðmundur Stephensen, í borðtennis, Viktor Kristmannsson, í fimleikum, Kristinn Ingi Valsson, skíðamaður, sundkonurnar Kolbrún Ýr Kristjánsdóttir og Ragnheiður Ragnarsdóttir og Arnar Sigurðsson í tennis. Þá má nefna að Birgir Leifur Hafþórsson hlýtur eingreiðslustyrk sem svarar til B-styrks afrekssjóðs en Birgir Leifur tryggði sér þátttöku á Evrópumótaröðinni í ár. Þá eru fimm íþróttamenn sem stefna á þátttöku á Ólympíuleikunum í Peking 2008 á styrk frá Ólympíusamhjálpinni, þ.e. 1.000 dollurum á mánuði, sem reiknast ca. kr. 828.000 á árinu 2007 eða alls kr. 4.140 þús. Tilkynnt var um þá úthlutun á síðasta ári. Auk þess er A-landslið karla í handknattleik á styrk frá Ólympíusamhjálpinni fram að næstu Ólympíuleikum. Nemur greiðsla ársins 28.000$ eða um 1.950 þús. Afrekssjóður hefur enn fjármagn til aflögu á árinu og verður það fjármagn nýtt í samræmi við árangur og verkefni sérsambandanna. Þrátt fyrir góðan styrk að þessu sinni er enn langt í land að styrkir ÍSÍ standi undir afreksstarfi sérsambandanna. Þegar skoðaðar eru umsóknir sérsambandanna í hina tvo sjóði ÍSÍ, sést eftirfarandi: Kostnaðaráætlanir þeirra 20 sérsambanda sem sóttu um styrk vegna íþróttamanna og verkefna til Afrekssjóðs ÍSÍ 2007 nema 323 milljónum króna. Framlag Afrekssjóðs ÍSÍ til sérsambanda nemur um 15% af kostnaðaráætlun þeirra. Kostnaðaráætlanir þeirra 18 sérsambanda og einnar sérgreinanefndar vegna umsókna í Sjóð ungra og efnilegra nam um 84 milljónum króna. Framlag sjóðsins að þessu sinni er um 9,2 milljónir eða um 11% af kostnaðaráætlunum
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert