Ísland byrjar á 3:2 sigri gegn Ítölum

Katrín og Ragna unnu góðan sigur í tvíliðaleiknum.
Katrín og Ragna unnu góðan sigur í tvíliðaleiknum. Ljósmynd/Jón Svavarsson

Ísland sigraði Ítalíu, 3:2, í fyrsta leik sínum í Evrópukeppni kvennalandsliða í badminton sem fram fór í Almere í Hollandi í dag.

Íslenska liðið mætir Wales á morgun og Þýskalandi á fimmtudag en sigurliðið í riðlinum kemst áfram.

Ragna Ingólfsdóttir byrjaði á að sigra Agnese Allegrini í fyrsta leiknum í viðureigninni. Sigur Rögnu var gífurlega mikilvægur því Allegrini er í 43. sæti heimslistans, ellefu sætum fyrir ofan hana, og langsterkasti leikmaður ítalska liðsins. Ragna vann fyrstu lotu 23:21, Allegrini þá næstu 21:17 en Ragna vann oddalotuna af öryggi, 21:14. Staðan var því 1:0 fyrir Ísland.

Tinna Helgadóttir lék gegn Ding Hui en átti aldrei möguleika. Sú ítalska vann 21:14 og 21:18 og staðan þar með jöfn, 1:1.

Sara Jónsdóttir mætti Ira Tomio í þriðju viðureigninni og var ekki í vandræðum með hana. Sara vann fyrst 21:11 og síðan 21:10. Staðan þá 2:1 fyrir Ísland.

Ragna og Katrín mættu Ira Tomio og Claudia Gruber í tvíliðaleik og unnu þær sannfærandi, 21:13 og 21:10. Staðan því 3:1 og úrslitin ráðin.

Sara Jónsdóttir og og Tinna Helgadóttir mættu loks Allegrini og Hui í tvíliðaleik. Eftir tvísýna fyrstu lotu unnu þær ítölsku 24:22 og svo aftur 21:15. Lokatölur í leiknum voru því 3:2, Íslandi í hag. 

Karlalandslið Íslands spilar ekki fyrr en klukkan 17.00 í dag þegar það mætir Rússum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert