SA lagði Björninn í miðnæturleik

Akureyringar, hvítir og rauðir, höfðu betur gegn Birninum í hörkuleik.
Akureyringar, hvítir og rauðir, höfðu betur gegn Birninum í hörkuleik. mbl.is/Frikki

Skautafélag Akureyrar lagði Björninn, 4:3, í hörkuspennandi leik á Íslandsmóti karla í íshokkí sem lauk í Skautahöllinni á Akureyri nú eftir miðnættið.

Leikurinn var hin besta skemmtun en þrátt fyrir að Akureyringar sæktu meira allan leikinn voru það Bjarnarmenn sem skoruðu fyrst. Þar var á ferð Sergei Zak með fallegt mark, 0:1, en hann er spilandi þjálfari Bjarnarins um þessar mundir eftir að Jukka Iso-Antila hvarf til síns heima í Finnlandi.

Það var nokkuð liðið á annan þriðjung þegar Josh Gribben jafnaði fyrir SA, 1:1. Birgir Hansen kom Bjarnarmönnum aftur yfir en Gribben var aftur á ferð og jafnaði, 2:2, og fullkomnaði síðan þrennu sína rétt fyrir lok annars leikhluta, 3:2.

SA jók forskotið í þriðja leikhluta með marki frá Jóni Gíslasyni, 4:2, en Bjarnarmenn gáfust ekki upp og Birgir Hansen minnkaði muninn í eitt mark, 4:3, þegar 10 mínútur voru eftir. Bjarnarmenn reyndu allt sem þeir gátu til að jafna og 30 sekúndum fyrir leikslok tóku þeir markmann sinn af velli og settu sóknarmann inná í staðinn en allt kom fyrir ekki og SA sigraði.

SA er þá komið með 21 stig eftir 9 leiki, SR er með 15 stig eftir 10 leiki og Björninn með 6 stig eftir 9 leiki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert