Helga Margrét með forystu eftir fyrri daginn á EM

Helga Margrét Þorsteinsdóttir.
Helga Margrét Þorsteinsdóttir. mbl.is/Hag

Helga Margrét Þorsteinsdóttir sjöþrautarkona úr Hrútafirði er með forystu eftir fyrri keppnisdaginn á EM unglinga í Serbíu. Fjórar greinar voru á dagskránni í dag og því eru þrjár eftir á morgun. Helga hefur safnað 3551 stigi í sarpinn í dag og hefur rúmlega 100 stiga forskot á næsta keppenda.

Dafne Schippers frá Hollandi er í 2. sæti með 3436 stig en í 3. sæti er Léa Sprunger frá Sviss með 3409 stig. 

Helga varð fjórða í sínum riðli í 200 metra hlaupi sem var síðasta grein dagsins. Hljóp á 24,89 sekúndum  og fékk fyrir það 897 stig.  Helga varð einnig fjórða í 200 metrum samanlagt og var hennar riðill því lang sterkastur.

Helga hljóp í dag 100 metra grindahlaup á 14.,36 sekúndum og fékk fyrir það  928 stig. Því næst stökk hún 1,75 metra í hástökki og tryggði sér 916 stig til viðbótar. Auk þess bætti hún persónulegan árangur sinn í kúluvarpi þegar hún kastaði 13,56 metra sem tryggði henni 810 stig til viðbótar.

Langstökk, spjótkast og 800 metra hlaup er á dagskrá á morgun. 

Íslandsmet Helgu Margrétar er 5878 stig, sett í Tékklandi fyrir mánuði síðan. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert