Semenya sögð vera tvíkynja

Caster Semenya.
Caster Semenya. Reuters

Fulltrúar Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins hafa fengið í hendur niðurstöður rannsókna, sem gerðar voru á suður-afrísku hlaupakonunni Caster Semenya, sem varð heimsmeistari í 800 metra hlaupi í sumar. Niðurstöðurnar verða ekki birtar strax en ástralskt dagblað fullyrðir að þær sýni að Semenya sé tvíkynja.

Blaðið Sydney Morning Herald segir, að í ljós hafi komið að Semenya, sem er 18 ára, sé bæði með kven- og karlkynfæri. Hún sé ekki með eggjastokka heldur innvortis eistu, sem framleiði mikið af karlhormóninu testosterón. 

Á fréttavef breska blaðsins Guardian kemur fram, að talsmaður Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins sé sagður hafa reynt að ná sambandi við Semenya án árangurs þar sem suður-afríska frjálsíþróttasambandið hafi ekki viljað upplýsa hvar hún er. Þessu neitar suður-afríska sambandið og segir að IAAF hafi ekki haft samband.  

Sydney Morning Herald hefur eftir Nick Davies, talsmanni IAAF, að ekki sé um að ræða lyfjamál, þar sem íþróttamaðurinn hafi vísvitandi reynt að hafa rangt við, heldur læknisfræðilegt mál. Rannsóknirnar gefi ekki tilefni til að gruna að reynt hafi verið að hafa rangt við heldur sé reynt að leggja mat á hvort Semenya hafi af læknisfræðilegum ástæðum haft forskot á keppinauta sína. Í málum sem þessum séu keppendur ekki sviptir verðlaunum sjálfkrafa. 

Sigur Semenya í 800 metra hlaupi á heimsmeistaramótinu í Berlín nýlega vakti upp miklar deilur vegna karlmannlegs útlits hennar, dimmrar raddar og mikilla krafta. Suður-Afríkumenn brugðust hins vegar ókvæða við þegar IAAF krafðist þess að Semenyja gengist undir læknisrannsóknir.  

Sydney Morning Herald segir, að IAAF vilji ekki birta niðurstöður rannsóknanna opinberlega fyrr en tekin hafi verið ákvörðun um hvernig bregðast eigi við. Einn möguleiki sé að láta Semenya halda gullverðlaunum sínum en afhenda Janeth Jepkosgei, sem varð í 2. sæti í 800 metra hlaupinu, einnig gullverðlaun.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert