Contador vann Frakklandshjólreiðarnar

Keppendurnir í París í dag.
Keppendurnir í París í dag. Reuters

Spánverjinn Alberto Contador vann Frakklandshjólreiðarnar í dag en keppninni lauk í miðborg Parísar. Þetta er þriðji sigur Contadors í Frakklandshjólreiðunum en hann sigraði einnig í fyrra og árið 2007.

Bretinn Mark Cavendish var hins vegar fljótastur á dagleiðinni í dag, 102,5 km vegalengd frá Longjumeau til Champs Élysées í París. Alls var Cavendish fljótastur á fimm dagleiðum þetta árið.

Tafir urðu í upphafi keppninnar í dag þegar dómarar bönnuðu bandaríska hljóleirðamanninum Lance Armstrong og liðsfélögum hans að halda af stað þar sem þeir voru ekki í löglegum keppnistreyjum.  

Armstrong og félagar hans klæddust fyrst svörtum treyjum með númerinu 28 á bakinu, sem vísaði til þess að 28 milljónir manna  berjist við krabbamein.  Armstrong hefur sjálfur þurft að glíma við krabbamein á ævinni. 

Hefð er fyrir því að lokaáfangi Frakklandshjólreiðanna sé einskonar sýningaráfangi og Contador saup á kampavíni á leiðinni og hélt upp þremur fingrum til merkis um að hann væri að sigra í þriðja skipti. Þá sprautaði hann úr vatnsbyssu á ljósmyndara.

Helsti keppinautur hans, Andy Schleck frá Lúxemborg, var einnig í góðu skapi  og spjallaði við fréttamenn á leiðinni.  Þetta er annað árið í röð sem Schleck er í öðru sæti.

Armstrong er sigursælasti keppandi í Frakklandshjólreiðunum, sem hafa verið haldnar frá árinu 1903. Armstrong hefur sigrað sjö sinnum, Frakkarnir Jacques Anquetil, Bernard Hinault, Belginn Eddy Merckx og Spánverjinn Miguel Indurain hafa sigrað fimm sinnum og Belgin Philippe Thys, Frakkinn Louison Bobet og Bandaríkjamaðurinn  Greg LeMond hafa sigrað þrisvar eins og Contador.

Alberto Contador fagnar sigri.
Alberto Contador fagnar sigri. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert