Tvöfalt hjá Jamaíkamönnum

Yohan Blake er kominn á fleygiferð á ný.
Yohan Blake er kominn á fleygiferð á ný. AFP

Jamaíkamenn, með Yohan Blake í fararbroddi, unnu í gærkvöld önnur gullverðlaun á heimsmeistaramótinu í boðhlaupum í Nassau á Bahamaeyjum þegar þeir sigruðu í lokagrein mótsins, 4x100 metra boðhlaupi.

Sveit Jamaíka vann 4x200 metrana á nýju heimsmeti á laugardaginn og vann 4x100 metrana á 37,77 sekúndum. Trínidad og Tóbagó varð í öðru sæti á 38,04 sekúndum og Bretland hafnaði í þriðja sæti á 38,19 sekúndum.

„Eftir að hafa unnið gull á Ólympíuleikunum og heimsmeistaramótinu vildum við sýna og sanna að við værum bestir. Það er frábært að vera kominn í gang á ný," sagði Blake sem missti af stórum hluta síðasta tímabils eftir að hann tognaði aftan í læri.

Keníamenn settu heimsmet í 4x1.500 metra hlaupi karla og bættu fimm ára gamalt met eigin sveitar um 14 sekúndur. Þar var tvöfaldur heimsmeistari í greininni, Asbel Kiprop, í aðalhlutverki. Kenía vann sömu grein í kvennaflokki á laugardaginn.

Bandaríkin unnu þrefaldan sigur í kvennaflokki í gær, 4x200, 4x400 og 4x800 metra boðhlaupin, en karlalið Bandaríkjanna féll úr keppni í 4x100 metrunum þegar sveitin gerði ógilt í undanrásunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert