Aníta, Hafdís og Guðmundur á EM á morgun

Guðmundur Sverrisson þreytir frumraun sína á stórmóti á morgun.
Guðmundur Sverrisson þreytir frumraun sína á stórmóti á morgun. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Hafdís Sigurðardóttir, Guðmundur Sverrisson og Aníta Hinriksdóttir verða öll á ferðinni á Evrópumeistaramótinu í frjálsum íþróttum í Zürich á morgun.

Hafdís er fyrst á ferðinni þegar hún keppir í undanrásum í 200 metra hlaupi um morguninn. Hafdís hleypur í 2. riðli um kl. 9.15 en hún á lakasta tímann af keppendum í þeim riðli og því litla von um að komast áfram í undanúrslit.

Besti árangur Hafdísar er 23,93 sekúndur og á þessu ári hefur hún hraðast hlaupið á 24,07 sekúndum. Íslandsmet Guðrúnar Arnardóttur er 23,81 sekúndur.

Lítil von fyrir Anítu að komast í úrslit

Aníta keppir í fyrri riðli undanúrslita í 800 metra hlaupi kl. 16.38 að íslenskum tíma. Þrjár fyrstu í hvorum undanúrslitariðlinum komast í úrslitin, sem og tvær með bestu tímana þar á eftir. Íslandsmet Anítu er 2:00,49 mínútur en hún hefur best hlaupið á 2:02,12 á þessu ári, en það gerði hún einmitt í morgun.

Af keppendunum 8 í riðli Anítu á hún 6. besta tímann, og þann 7. besta á árinu.

Guðmundur Sverrisson þreytir svo frumraun sína á stórmóti þegar hann keppir í forkeppni spjótkasts síðdegis. Guðmundur er í B-riðli, númer 2 í kaströðinni, þar sem keppni hefst kl. 16.45. Hans besti árangur er 80,66 metrar. Á þessu ári hefur Guðmundur lengst kastað 78,29 metra og er Svíinn Gabriel Wallin sá eini með lakari árangur af þeim 32 keppendum sem taka þátt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert