Vona að Björn tapi

Björn Róbert Sigurðsson, íshokkímaður.
Björn Róbert Sigurðsson, íshokkímaður. Ljósmund/Íshokkísamband Íslands

„Við byggjum þetta lið ekki á neinum stjörnum. Fyrir mér er liðið sjálft stjarna. En auðvitað yrði mikilvægt að fá Björn inn í hópinn,“ sagði Tim Brithén, landsliðsþjálfari karla í íshokkíi, við Morgunblaðið í gær. Liðið mun brátt hefja lokaundirbúning sinn fyrir heimsmeistaramótið en keppni í A-riðli 2. deildar hefst svo í Skautahöllinni í Laugardal hinn 13. apríl og stendur yfir í viku.

Vonir standa til þess að Björn Róbert Sigurðarson snúi aftur í landsliðið en hann var ekki með á HM í Serbíu í fyrra, þegar Ísland fékk silfurverðlaun og náði sínum besta árangri frá upphafi. Björn er leikmaður Aberdeen Wings í norðuramerísku deildinni (NAHL) og er þriðji markahæsti leikmaður liðsins með 13 mörk og 16 stoðsendingar í 54 leikjum í vetur. Lið hans er á leið í úrslitakeppni þar sem vinna þarf þrjá leiki til að komast áfram, og verður leikið 3., 4., 10., 11. og 17. apríl. HM hefst hins vegar 13. apríl, eins og áður segir, og eina leiðin til að Björn spili með Íslandi er því að lið hans tapi 3:0 eða 3:1 og falli snemma úr leik. Því má segja að Brithén og félagar séu í þeirri sérkennilegu stöðu að vonast eftir tapi Björns.

„Við erum að tala um mjög góðan hokkíspilara miðað við þetta stig. Fyrir mér eru allir leikmenn mikilvægir og við viljum byggja upp lið, en ef við getum fengið leikmenn sem auka gæðin í hópnum þá er enginn glaðari en ég,“ sagði hinn sænski Brithén.

Jónas Breki ekki með í Furudal?

Landsliðið kemur saman á ný næsta miðvikudag og fer til Svíþjóðar í æfingabúðir, í litlum bæ sem heitir Furudal. Að vanda verður stór hluti hópsins skipaður leikmönnum sem hafa nýlokið við að spila á Íslandsmótinu, þar sem grunnt var á því góða á milli manna í úrslitarimmunni á milli SA og SR. Í Furudal verður æft tvisvar á dag og leiknir æfingaleikir á föstudag og laugardag, áður en haldið verður heim. Einnig er stefnt að því að taka vináttulandsleik við Ástralíu á laugardeginum fyrir HM en Ástralar eru á meðal þeirra fimm þjóða sem mæta Íslandi á mótinu. Hinar eru Belgía, Spánn, Rúmenía og Serbía.

Utan Björns ættu allir leikmenn að geta tekið fullan þátt í undirbúningnum. Þó gæti baráttuhundurinn Jónas Breki Magnússon misst af hluta hans vegna úrslitakeppni með liði sínu í næstefstu deild Danmerkur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert