Samkeppni það allra besta fyrir íþróttina

Íslenskar landsliðskonur í hópfimleikum leika listir sínar.
Íslenskar landsliðskonur í hópfimleikum leika listir sínar. mbl.is/Ómar

Íslandsmótið í hópfimleikum fer fram í dag og á morgun í íþróttahúsinu Ásgarði í Garðabæ. Mbl.is ræddi við tvo þjálfara og einn dómara um mótið og á hverju þau ættu von um helgina en í dag ráðast úrslit í keppni liðanna um Íslandsmeistaratitlana og á morgun er keppt til úrslita á einstökum áhöldum.

Keppni í dag hefst klukkan 16.50 en á morgun er byrjað klukkan 12.30.

Yfirlandsliðsþjálfari kvenna Ása Inga Þorsteinsdóttir fylgist spennt með mótinu um helgina. Hún ræddi við blaðamann Morgunblaðsins um mótið og uppganginn í fimleikum á Íslandi. „Nú er maður í öðrum sporum en áður en þetta er rosalega skemmtilegt. Það er mikil gróska í fimleikahreyfingunni og hópfimleikunum og rosalega sterk lið að koma upp.“

Krakkar frá Egilsstöðum hafi verið í fyrsta skipti í landsliði á síðasta Evrópumóti sem sýni gróskuna í íþróttinni. „Við viljum fá keppni milli liða eins og verður á þessu móti, ekki bara eitt lið með yfirburði. Þannig verðum við best sem landslið. Það að hafa sterka samkeppni innan fimleikanna á Íslandi er það allra besta fyrir íþróttina.“

Henni finnst vanta fleiri stráka en þetta sé að þokast í rétta átt í þeim málum. „Það er fjölgun í blönduðum liðum sem sýnir að strákunum er að fjölga. Þeir ná kannski ekki í heilt strákalið en eru með sterkan kjarna.“

Mótið er hápunktur tímabilsins hér á landi og að því loknu fara liðin í efstu tveimur sætunum að undirbúa sig fyrir Norðurlandamót sem fer fram í nóvember. „Ég er mjög spennt fyrir helginni, þetta verður hrikalega gaman,“ sagði Ása Inga Þorsteinsdóttir.

Ætlum að berjast til síðasta blóðdropa

„Mér líst mjög vel á helgina. Þetta verður spennandi og við ætlum að berjast til síðasta blóðdropa til að ná titlinum,“ sagði Niclaes Jerkeholt, þjálfari Stjörnunnar í kvennaflokki í samtali við Morgunblaðið. Vonast Jerkeholt til að hans stúlkur muni njóta helgarinnar og gera sitt allra besta, Stjarnan geti vel unnið Gerplu. „Það er alltaf smá stress fyrir mót en markmiðið er að skemmta sér og klára allt okkar vel. Öll stökk og allar lendingar, ná öllu af fullum krafti.“

Jerkeholt hefur verið þjálfari hjá Stjörnunni síðan árið 2007. Hvað olli því að sænskur fimleikaþjálfari settist að hér á landi? „Ísland hefur í gegnum tíðina leitað að þjálfurum erlendis. Ég var í fullu starfi sem þjálfari í Örebro en svo fannst mér kominn tími til að breyta um umhverfi. Ég hafði þjálfað í sautján ár í Örebro svo það var tilvalið að breyta til.“ Jerkeholt líkar lífið á Íslandi vel og sagðist mjög spenntur fyrir Íslandsmótinu.

Ræðst á gólfæfingunum eða dýnunni

Björn Björnsson er fyrrverandi landsliðsþjálfari. Hann er enn í kringum fimleika en í dag er hann dómari. Morgunblaðið ræddi við hann um komandi Íslandsmót. „Ég er gríðarlega spenntur fyrir helginni og hlakka mikið til að sjá hvernig þetta fer allt saman enda sjaldan ef einhverntímann verið jafn mikil spenna um það hver tekur Íslandsmeistaratitilinn. Ég held að Stjarnan eða Gerpla eigi von á titlinum.“

Segir hann úrslitin líklega ráðast á gólfæfingunum eða á dýnunni. „Gólfæfingarnar hafa svolítið mikið að segja stundum, þar getur myndast mikill munur á liðunum en ég held reyndar að bæði lið mæti með þannig æfingar til leiks að ekkert klikki í gólfæfingunum. Sennilega mun dýnan skera út um þetta.“

Björn benti einnig á uppganginn sem er hjá körlunum, þrátt fyrir að aðeins eitt karlalið sé skráð til keppni. „Það hefur líklega aldrei verið jafn stór hópur að baki einu karlaliði og nú í vetur. Stefnan hjá þeim er að vera með lið á Norðurlandamótinu sem verður haldið hér í haust.“ Til að komast inn á það þurfa þeir að ná ákveðnum lágmarksárangri á mótinu.

Björn sagði að það kítlaði vissulega að snúa sér aftur að þjálfun. „Maður kemur inn í salinn og sér kraftinn í krökkunum og mann langar alltaf að taka þátt.“

Stemningin á fimleikamótum er engu lík. „Hún er auðvitað alveg sturluð. Þess vegna finnst mér mjög spennandi að vera hluti af þessu, þó það sé allt annað að dæma en að þjálfa. Þá situr maður svo nálægt þessari spennu og er einhvernveginn í stemningunni og upplifir hana mjög vel.“ Björn býst við spennandi móti og miklum látum. „Þakið fer af þessari höll, ef það verður ekki vindurinn þá verða það lætin!“ sagði Björn Björnsson að lokum.

mbl.is/Ómar
Björn Björnsson að störfum.
Björn Björnsson að störfum. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert