Einvígið mun fara í fimm leiki

„Þetta var alls ekki það sem við ætluðum okkur í dag, þeir voru hreinlega sterkari en við. Síðasti leikur var miklu betri og miklu jafnari þar sem við áttum meiri möguleika, en í dag réðu þeir leiknum,“ sagði Emil Gunnarsson, fyrirliði Stjörnunnar, í samtali við mbl.is eftir 3:0-ósigur liðsins gegn HK í öðrum leik liðanna í einvíginu um Íslandsmeistaratitil karla í blaki.

Stjarnan elti svo að segja allan leikinn og tapaði hrinunum þremur 25:18, 25:23 og 25:20.

„Við tókum ekki nógu vel á móti og þar af leiðandi var sóknin okkar erfið allan tímann þar sem þeir eru með sterka hávörn. Við þurfum að taka betur á móti til að tvístra þeim betur. Við fórum svo illa með uppgjafirnar, sérstaklega í annarri hrinu,“ sagði Emil.

Stjarnan er nú 2:0 undir í einvíginu og HK getur tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í þriðja leiknum á heimavelli sínum í Fagralundi á miðvikudagskvöld.

„Það kemur ekki til greina, þetta er nákvæmlega sama staða og í fyrra þegar einvígið fór í fimm leiki. Það mun gera það aftur,“ sagði Emil einbeittur, en nánar er rætt við hann í meðfylgjandi myndskeiði.

Fjallað verður um úrslitakeppnina í blaki í Morgunblaðinu á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert