HK einum sigri frá titlinum

HK-ingar fagna sigrinum í Ásgarði í dag.
HK-ingar fagna sigrinum í Ásgarði í dag. Ómar Óskarsson

Deildarmeistarar HK er einum sigri frá því að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í blaki karla eftir sigur á Stjörnunni, 3:0, í öðrum leik liðanna í einvíginu í Ásgarði í dag.

Gestirnir úr Kópavoginum náðu yfirhöndinni snemma í fyrstu hrinu en Stjörnumenn voru þó aldrei langt undan. Þeir náðu hins vegar ekki að ógna forystunni að ráði heldur, HK gaf í og vann fyrstu hrinu 25:18.

HK hélt uppteknum hætti í byrjun næstu lotu og komst meðal annars í 8:1. Það lifnaði þó vel yfir Stjörnunni eftir það, heimamenn jöfnuðu metin í 12:12 og komust yfir í kjölfarið. Gríðarleg spenna var allt til loka hrinunnar og jafnræðið mikið. Á ögurstundu klikkaði uppgjöf heimamanna og HK tryggði sér sigur í hrinunni, 25:23, og gat klárað leikinn í þeirri næstu.

Þriðja hrina byrjaði af krafti hjá báðum liðum en HK-ingar höfðu yfirhöndina. Stjarnan jafnaði í 12:12 og komst yfir í kjölfarið líkt og í annarri hrinu. Það dugði þó skammt, HK skoraði næstu fimm stig og komst í góða stöðu fyrir lokasprettinn. Stjarnan náði ekki að koma til baka eftir það, HK vann hrinuna 25:20 og leikinn 3:0.

Liðin mætast þriðja sinni í Fagralundi á miðvikudagskvöldið þar sem HK getur tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn.

Fyrirliðinn Lúðvík Már Matthíasson er hér til varnar fyrri HK …
Fyrirliðinn Lúðvík Már Matthíasson er hér til varnar fyrri HK í dag. Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert