Metþátttaka á Akureyri

Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri UMFÍ.
Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri UMFÍ. mbl.is/Sigurður Bogi

„Það eru komnir rúmlega 2.100 þátttakendur á mótið í ár, en fyrra metið var slegið á Selfossi árið 2012 þegar það voru rúmlega 2.000 manns skráðir til leiks,“ sagði Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri unglingalandsmótsins, í samtali við mbl.is í dag.

Unglingalandsmótið fer fram á Akureyri þessa helgina, en það hófst í dag með keppni í golfi og verður svo slitið á sunnudag með sundlaugarpartý og lokahófi.

Mótið var fyrst haldið á Dalvík árið 1992, en var ekki haldið aftur fyrr en 1995. Þau hafa svo verið árlega frá árinu 2002.

Þetta verður stærsta mótið sem haldið er til þessa, en það fer fram á Akureyri. Talið er að um 40 þúsund manns verði á Akureyri þessa helgina og er gert ráð fyrir að 10-15 þúsund manns flykkist að vegna mótsins.

Fjölskylduhátíðin „Ein með öllu“ fer fram á Akureyri um verslunarmannahelgina, en Ómar segir að gott samstarf sé á milli framkvæmdastjórn UMFÍ og hátíðarinnar.

„Það hefur verið mjög gott samstarf. Við réðum þau í ákveðin verkefni líka og þegar svona verkefni eru þá er betra að vinna saman en á móti. Þetta er win-win fyrir báða aðila,“ sagði Ómar við mbl.is í kvöld.

„Hér á Akureyri geta orðið 40 þúsund manns um þessa helgi. Það fylgir okkur 10-15 þúsund manns sem hafa fylgt okkur í gegnum mótin og svo er „Ein með öllu“ líka.“

Fleiri keppnisgreinar til að velja úr

Margar nýjar íþróttagreinar bættust við fyrir þetta mót, en Ómar segir að framkvæmdastjórn sé farin að leita meira í jaðarsportið, enda er áhugi unglinga misjafn. Júdó, lyftingar og Parkour eru meðal nýrra greina.

„Við bættum við mörgum keppnisgreinum. Við verðum með handbolta, pílukast, badminton, hjólreiðar, borðtennis, listum á skautum, júdó, lyftingar og parkour. Þetta eru þær nýju greinar sem við erum með,“ sagði Ómar.

Þátttakendur eru rúmlega 2.100 eins og áður kom fram, en í fyrra voru um 1.500 þátttakendur á Sauðárkróki. Iðkendur í fótbolta erum 1.100, en Ómar kemur inn á að margir keppendur í fótbolta taki einnig þátt í öðrum greinum.

„Þetta er komið í 2.100 rúmlega og í fyrra var það um 1.500. Fyrra metið er um 2.000, sem var á Selfossi ári 2012. Iðkendur úr fótbolta eru um 1.100, en þar eru líka þátttakendur sem eru í mörgum greinum.“

„Það eru ekkert allir í fótbolta, frjálsum, handbolta og körfu. Parkour kemur inn, taekwondo og júdó og okkur finnst eftirsóknarvert að vera með þessa sem eru að stunda þetta og þeir fá að vera hluti af þessu líka.“

„Við erum að leita aðeins út fyrir kassann í þessar greinar og þessar íþróttir sem hafa verið í umræðunni og vera ekki bara með þessar hefðbundnu greinar. Ég meina það hefur verið keppt í frisbee golfi þar sem mömmur og pabbar geta tekið þátt í,“ sagði hann ennfremur.

Spilað í FIFA 15

Á síðasta ári var ákveðið að bæta tölvuleikjagrein inn í mótið, en þar spila keppendur fótboltaleikinn vinsæla, FIFA 15, en hann segir að sú ákvörðun hafi vakið miklar vinsældir meðal þátttakenda.

Við byrjuðum á tölvuleikjum í fyrra og þar er spilað í FIFA 15. Það sprengdi allt hjá okkur á Sauðárkróki í fyrra og setti allt um koll. Það er fín skráning þar núna og við erum ekki að hvetja krakka að vera 36 tíma í tölvuleikjum hjá okkur heldur tökum við hraðmót, þannig það er auðvitað skemmtilegt,“ sagði hann að lokum.

Ásmundur Arnarsson, þjálfari ÍBV, var með krakkana sína á unglingalandsmótinu …
Ásmundur Arnarsson, þjálfari ÍBV, var með krakkana sína á unglingalandsmótinu á síðasta ári. Ljósmynd/Gunnar Gunnarsson
Frá unglingalandsmótinu á síðasta ári.
Frá unglingalandsmótinu á síðasta ári. Ljósmynd/Birgir Örn Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert