Vilja bann á Rússa

Vitaly Mutko, íþróttamálaráðherra Rússlands, er í slæmum málum.
Vitaly Mutko, íþróttamálaráðherra Rússlands, er í slæmum málum. AFP

Alþjóða lyfjaeftirlitið (WADA) leggur til í nýrri skýrslu sinni að keppendum á vegum rússneska frjálsíþróttasambandsins (ARAF) verði meinað um þátttöku að keppni í frjálsum íþróttum.

Ólympíuleikarnir fara fram í Rio de Janeiro í Brasilíu á næsta ári en ljóst er að ef alþjóða frjálsíþróttasambandið verður við beiðni WADA þá mun enginn rússneskur keppandi taka þátt í Rio eftir ár.

Mikið hefur verið rætt og ritað um þetta stóra lyfjamál en talið er að fjöldi keppanda frá Rússlandi hafi verið á ólöglegum lyfjum á Ólympíuleikunum í London fyrir þremur árum síðan.

Það kemur jafnframt fram í skýrslunni að Rússar hafi í raun og veru rústað Ólympíuleikunum það árið vegna þess hve margir keppendur voru á ólöglegum lyfjum. 

WADA kallaði saman þriggja manna nefnd til þess að fara yfir málið en Dick Pound, fyrrum forseti WADA, leiðir nefndina. Richard McLaren og Gunter Younger eru hinir tveir mennirnir í nefndinni en skýrslan þeirra er heilar 300 blaðsíður.

Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að banna fimm þjálfara og íþróttamenn frá Rússlandi en meðal þeirra eru Mariya Savinova-Farnosova og Ekaterina Poistogva sem unnu báðar til verðlauna á síðustu Ólympíuleikum. Mariya vann gull og Ekaterina brons.

Vitaly Mutko, íþróttamálaráðherra Rússlands, vildi jafnframt að íþróttamenn á vegum þjóðarinnar myndu svindla. Skipt var út þeim sýnum sem innihéldu ólögleg efni fyrir hrein sýni

Mutko er einnig í framkvæmdanefnd alþjóðaknattspyrnusambandsins (FIFA) og er þá í skipulagsnefnd fyrir HM í knattspyrnu sem á að fara fram í Rússlandi árið 2018.

Sebastian Coe, forseti alþjóða frjálsíþróttasambandsins (IAAF), hefur gefið Rússum frest út vikuna til þess að svara skýrslunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert