Tinna landsliðsþjálfari í badminton

Tinna Helgadóttir, nýr landsliðsþjálfari í badminton.
Tinna Helgadóttir, nýr landsliðsþjálfari í badminton. Ljósmynd/BSÍ

Tinna Helgadóttir hefur verið ráðin landsliðsþjálfari Íslands í badminton frá og með næstu mánaðamótum. Helgi Jóhannesson, sem gegnt hefur stöðu unglingalandsliðsþjálfara, verður Tinnu til aðstoðar.

Tinna, sem býr í Danmörku og leikur með Værlöse 2 í dönsku 1. deildinni, hefur átt glæstan feril hér á landi. Hún hefur fjórum sinnum orðið Íslandsmeistari í einliðaleik, þrisvar í tvíliðaleik, og sjö sinnum í tvenndarleik. Hún á að baki 51 landsleik og var í liði Íslands sem vann gull á EM B-þjóða. Hún varð danskur meistari með Greve árið 2010 og fékk brons með liðinu árið 2008.

Tinna er íþróttafræðingur frá Kaupmannahafnarháskóla en hún hefur jafnframt gráðurnar DBF3 badmintonþjálfari og Diplomþjálfari frá Aalborg Sportshøjskole. Þá er hún að klára Idrættens Trænerakademi frá Danmarks Idrætsforbund. Hún hefur þjálfað frá árinu 2008, hjá Greve og Værlöse í Danmörku.

Helgi hefur ekki síður átt glæstan feril hér á landi en hann hefur fimm sinnum orðið Íslandsmeistari í einliðaleik, 10 sinnum í tvíliðaleik og tvisvar í tvenndarleik. Hann hefur starfað sem þjálfari undanfarin ár og tekið námskeið í badmintonþjálfun sem og afreksþjálfun.

Samkvæmt fréttatilkynningu verður næsta tímabil nýtt til að byggja upp nýtt landslið, og með það í huga verður settur saman afrekshópur. Þjálfarar munu velja í hópinn og finna viðeigandi verkefni fyrir liðsmenn, en ákveðið hefur verið að senda ekki lið til keppni á EM að þessu sinni.

Helgi Jóhannesson verður Tinnu til aðstoðar.
Helgi Jóhannesson verður Tinnu til aðstoðar. Ljósmynd/BSÍ
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert