Mætir Þormóður þeim besta?

Þormóður Árni Jónsson.
Þormóður Árni Jónsson. mbl.is/Golli

Júdókappinn Þormóður Jónsson er kominn til eyjunnar Jeju, sem tilheyrir Suður-Kóreu, en þar hefur hann keppni á Grand Prix-móti í nótt, eða á laugardagsmorgni að staðartíma.

Þormóður mætir Freddy Figueroa frá Ekvador í fyrstu umferðinni og hann er talinn eiga góða möguleika á sigri gegn honum. Gangi það eftir verður andstæðingurinn enginn annar en Teddy Riner frá Frakklandi, sem talinn er besti júdómaður heims fyrr og síðar.

Riner er 26 ára gamall, áttfaldur heimsmeistari og ríkjandi ólympíumeistari síðan í London 2012, en hann varð fyrst heimsmeistari aðeins 18 ára gamall.

Þormóður er í harðri  baráttu um stig á alþjóðlegum mótum til að vinna sér keppnisrétt á Ólympíuleikunum í Ríó á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert