Murray tryggði Bretum langþráðan titil

Murray sést hér hylltur af liðsfélögum sínum eftir að hafa …
Murray sést hér hylltur af liðsfélögum sínum eftir að hafa tryggt Bretum sigur í gær. AFP

Bretland tryggði sér í gær sigur í Davis Cup í tennis í fyrsta skipti síðan árið 1936. Andy Murray tryggði Bretum sigur með því að leggja Belgann David Goffin, 6:3 7:5 6:3. Þrátt fyrir að langt sé síðan Bretar unnu síðast þá er þetta tíundi titill þeirra.

Davis Cup er heimsmeistaramót landsliða í tennis. Bretar lögðu Bandaríkin í fyrstu umferð, 3:2. Frakkar urðu á vegi Breta í 8-liða úrslitum en Bretar sigruðu granna sína 3:2. Í undanúrslitum sigruðu Bretar Ástrali 3:2. Úrslitaviðureignin var leikin gegn Belgum, í Belgíu, og þar tryggði Murray Bretum 3:1 sigur.

„Ég trúi því varla hvað við höfum afrekað. Ég leik oft minn besta leik þegar ég spila fyrir þjóð mína,“ sagði Murray eftir að hann tryggði Bretum titilinn í gær.

„Við verðum að njóta augnabliksins því við vitum ekki hvort við fáum tækifæri til að endurtaka þetta,“ bætti sigurreifur Murray við.

Goffin gerði sitt besta til að halda aftur af hinu sterka Murray en leikur þeirra stóð í tvær klukkustundir og 54 mínútur. Hann varð að endingu að játa sig sigraðan og Murray var ákaft fagnað af liðsfélögum sínum.

Fyrirliði Breta, Leon Smith, var í skýjunum eftir að úrslitin voru ljós. „Þetta er ótrúlegt. Tilfinningin er alveg jafn góð og ég bjóst við að hún yrði. Murray er búin að sýna og sanna að hann er stórstjarna. Hann er fyrstur manna til að tala um liðsafrek en það sem hann gerði er frábært. Ég er rosalega stoltur af öllum,“ sagði Smith.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert