Ari Bragi og Bjartmar bæta sig

Ari Bragi Kárason, t.v. í hvítri treyju, er á skriði …
Ari Bragi Kárason, t.v. í hvítri treyju, er á skriði um þessar mundir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

FH-ingurinn Ari Bragi Kárason gerði það gott á frjálsíþróttamóti í Cork á Írlandi í gær þar sem hann bætti sinn tíma í 200 m hlaupi um 16/100 úr sekúndu og var einnig undir sínum besta tíma í 100 m hlaupi en þá var meðvindur aðeins yfir löglegum mörkum.

Ari Bragi hljóp 200 m á 21,30 sekúndum og bætti eins og fyrr segir fyrri árangur sinn um sextán hundraðshluta úr sekúndu. Meðvindur var undir mörkum og því tíminn löglegur. Hann fór síðan 100 metrana á 10,50, sem er undir Íslandsmetinu, en tíminn fæst ekki skráður sem met þar sem vindur var aðeins yfir mörkum.  Jón Arnar Magnússon á Íslandsmetin í 100 og 200 m hlaupi, 10,57 sekúndur og 21,17. Metin eru orðin um 20 ára gömul og nálgast Ari Bragi þau óðfluga. 

Þá hljóp Bjartmar Örnuson 800 metrana á 1.51,97 mínútum á móti í Sollentuna í Svíþjóð í gær. Hann bætti einnig sinn fyrri árangur. Bjartmar mun á næstunni taka þátt í fleiri mótum í Svíþjóð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert