Ólýsanlegt að heyra þjóðsönginn

Íslensku Evrópumeistararnir í stúlknaflokki í dans sínum á EM í …
Íslensku Evrópumeistararnir í stúlknaflokki í dans sínum á EM í Slóveníu í dag. Ljósmynd/Steinunn Anna

„Tilfinningin er æðisleg og frábært að geta unnið svona stórt mót,“ sagði Birta Ósk Þórðardóttir, einn Evrópumeistaranna í hópfimleikum í stúlknaflokki, í samtali við mbl.is í kvöld eftir að íslenska stúlknaliðið varð Evrópumeistari með yfirburðum í keppni sex bestu liða Evrópu í Lukna-íþróttahöllinni í Maribor í Slóveníu í dag.

„Dansinn var glæsilegur. Tilfinning mín hefur aldrei verið betri í dansinum en að þessu sinni. Hjarta mitt er á fullu,“ sagði Birta Ósk enn fremur. „Við vorum ánægðar með að fá að byrja í dansinum því hann vegur þungt í stigagjöfinni og er fyrir vikið mjög stressandi keppnisgrein. En þegar hann gekk svo glæsilega upp hjá okkur vorum við öruggar með okkur,“ sagði Birta Ósk eftir að hún tók við verðlaunum sínum.

„Ég get ekki lýst því með orðum hversu gaman var að standa á verðlaunapallinum og heyra þjóðsönginn leikinn. Við kunnum ekki allar allan textann við þjóðsönginn en gerðum okkar besta,“ sagði Birta Ósk, sem sagðist ekki reikna með að auðvelt yrði að sofna í kvöld. „Adrenalínið er á fullu. Maður er hátt uppi og verður lengi að ná sér niður,“ sagði Birta Ósk Þórðardóttir, ein úr Evrópumeistaraliði stúlkna í hópfimleikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert