Þrír Íslendingar í 16-manna úrslitunum

Norðurlandamótið fer að þessu sinni fram á Íslandi, nánar tiltekið …
Norðurlandamótið fer að þessu sinni fram á Íslandi, nánar tiltekið á Billiardbarnum í Faxafeni.

Riðlakeppni Norðurlandamótsins í snóker er lokið en mótið fer fram á Billiardbarnum í Faxafeni. Þrír íslenskir leikmenn komust áfram í 16 manna úrslitin sem hefjast í hádeginu í dag.

Kristján Helgason vann sinn riðil með miklum yfirburðum en hann vann alla sína 4 leiki og tapaði ekki einum einasta ramma. Þorri Jensson og Gunnar Hreiðarsson komust einnig áfram með því að lenda í 2. sæti sinna riðla.

Í 16 manna úrslitum mætast Kristján og Gunnar í Íslendingaslag. Þorri Jensson fær erfiðan finnskan andstæðing, Risto Vayrynen, en sá kappi vann alla sína 4 leiki í riðlakeppninni.

Rune Kampe frá Danmörku, Norðurlandameistari frá 2015 og margfaldur danskur meistari, mætir samlanda sínum, Lasse Petersen. Norðmaðurinn Christopher Watts, sem er af breskum ættum, mætir 19 ára Svía, Belan Sharif.

Finnar hafa á að skipa virkilega góðri sveit snókerspilara en alls 8 leikmönnum af þeim 9 sem komu hingað á mótið tókst að vinna sér sæti í útsláttarkeppninni. Þrjár finnskar viðureignir verða leiknar í 16 manna úrslitunum. Finnar munu því eiga að minnsta kosti þrjá fulltrúa í 8 manna úrslitum.

Til marks um styrkleika mótsins má nefna að ríkjandi Norðurlandameistari, Benjamin McCabe, komst ekki áfram og ekki heldur ríkjandi Íslandsmeistari, Jóhannes B. Jóhannesson.

8 manna úrslitin verða spiluð kl. 15 og undanúrslitaleikirnir kl. 18 í kvöld. Úrslitaleikurinn verður síðan á morgun kl. 14.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert