Öflugt lyftingafólk á Íslandsmóti að Varmá

Þuríður Erla Helgadóttir er á meðal keppenda á Íslandsmótinu.
Þuríður Erla Helgadóttir er á meðal keppenda á Íslandsmótinu. Ljósmynd/Kari Kinnunen

Íslandsmótið í ólympískum lyftingum fer fram á morgun, sunnudag, í íþróttahúsinu að Varmá í Mosfellsbæ og hefst klukkan 9.

Meðal keppenda verða lyftingakarl ársins 2016, Andri Gunnarsson úr LFG, og Þuríður Erla Helgadóttir úr Ármanni. Þau urðu stigahæst á mótinu í fyrra og settu þá bæði Íslandsmet í sínum þyngdarflokkum, Andri í +105 kg flokki og Þuríður Erla í 58 kg flokki.

Meðal annarra keppenda sem vert er að fylgjast með eru Freyja Mist Ólafsdóttir úr LFR sem setti fjölmörg Norðurlandamet unglinga á síðasta ári og varð Norðurlandameistari í 75 kg flokki, Lilja Lind Helgadóttir úr LFG sem varð í haust Norðurlandameistari unglinga fjórða árið í röð, Aníta Líf Aradóttir úr LFR sem vann til bronsverðlauna í 69 kg flokki á Norðurlandamótinu og Sólveig Sigurðardóttir úr LFR sem náð hefur athyglisverðum árangri undanfarið og var m.a. hársbreidd frá því að setja Íslandsmet í jafnhendingu í 63 kg flokki á Reykjavíkurleikunum.

Þá mætir einnig til leiks Einar Ingi Jónsson úr LFR sem sett hefur fjölmörg Íslandsmet í 69 kg flokki undanfarið og er Norðurlandameistari unglinga undanfarin tvö ár auk þess að hafa unnið bronsverðlaun á Norðurlandamóti fullorðinna í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert