Mjög góður tími Örnu Stefaníu

Arna Stefanía Guðmundsdóttir
Arna Stefanía Guðmundsdóttir Ljósmynd/Páll

Arna Stefanía Guðmundsdóttir úr FH var nokkuð nærri lágmarkinu fyrir heimsmeistaramótið í frjálsum íþróttum þegar hún keppti í 400 metra grindahlaupi á Copenhagen Games í dag. 

Arna sigraði í greininni á tímanum 56:59 sekúndum og setti aftur fyrir sig þrjá hlaupara sem eiga betri tíma í greininni. 

Lágmarkið fyrir HM í London er 56:10 sekúndur og Arna er því ekki langt frá því en hún hefur nokkrar vikur í viðbót til að ná því. Arna á best 56:08 sekúndur frá því í fyrra en þeim tíma náði hún fyrir 1. október en keppendur þurftu að vinna sig inn í mótið eftir þann tíma. 

Arna hljóp sitt fyrsta hlaup utanhúss í sumar á Smáþjóðaleikunum í San Marínó. Þar sigraði hún á 59,14 sekúndum þrátt fyrir flensu sem þá herjaði á hana. 

Arna mun síðar í sumar keppa á EM U-23 ára í Póllandi. Samkvæmt heimasíðu frjálsíþróttasambands Evrópu er tími Örnu í dag sá næstbesti í flokki U23 hjá Evrópubúum í sumar, og sá 14. besti í flokki fullorðinna í Evrópu.

Arna Stefanía Guðmundsdóttir á Smáþjóðaleikunum á dögunum.
Arna Stefanía Guðmundsdóttir á Smáþjóðaleikunum á dögunum. Ljósmynd/GSSE
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert