Metþátttaka í miðnæturhlaupi Suzuki

Frá miðnæturhlaupi Suzuki.
Frá miðnæturhlaupi Suzuki. Ljósmynd/Helga Birna Jónsdóttir

Hið árlega Miðnæturhlaup Suzuki fer fram í 25. sinn föstudagskvöldið 23. júní næstkomandi. Þátttakendur geta valið milli þriggja vegalengda: hálfmaraþons (21,1 km), 10 km og 5 km.

Skráning í hlaupið gengur mjög vel, 17% fleiri eru nú skráðir en á sama tíma í fyrra. Þó að skráningu sé ekki lokið er ljóst að met verður slegið í fjölda þátttakenda í hálfu maraþoni. Þegar eru 764 búnir að skrá sig í þá vegalengd en þátttökumetið frá því í fyrra er 611. Þá eru tæplega 600 skráðir í 10 km hlaupið og nálægt 700 í 5 km.

Aldrei hafa fleiri erlendir hlauparar skráð sig til þátttöku en nú eða rúmlega 1100. Í fyrra voru erlendir þátttakendur um 900 talsins sem var líka met. Flestir erlendu þátttakendanna sem nú eru skráðir koma frá Bandaríkjunum eða 448. Þá eru skráðir Bretar 224, Kanadamenn 106 og Þjóðverjar 39. Erlendu þátttakendurnir eru af 48 mismunandi þjóðernum og því verður sannarlega alþjóðleg stemning í Laugardalnum á föstudagskvöld.

Skráning í hlaupið er í fullum gangi á vefnum marathon.is og verður netskráning opin til miðnættis annað kvöld. Þau sem ekki ná að forskrá sig á netinu geta skráð sig í Laugardalshöllinni frá kl.16:00 á hlaupdag og þar til 45 mínútum áður en hlaupið hefst. Á sama stað sækja forskráðir þátttakendur hlaupnúmerið sitt og önnur skráningargögn. Allir eru hvattir til að skrá sig á netinu því þátttökugjaldið er hærra á hlaupdag.

Þátttakendur í hálfu maraþoni og 10 km hlaupi verða ræstir af stað kl. 21:00 og í 5 km kl. 21:20. Hlauparar verða ræstir af stað á Engjaveginum en koma í mark í trjágöngunum við gömlu þvottalaugarnar í Laugardalnum. Reikna má með að allir hlauparar verði komnir í mark um miðnætti og munu eflaust flestir láta þreytuna líða úr sér í Laugardalslauginni en þangað er öllum þátttakendum boðið að hlaupi loknu.

Engjavegur verður lokaður að hluta frá kl. 17 en einnig verða truflanir á umferð á Gnoðavogi, Álfheimum, Skeiðarvogi og Rauðagerði. Sjá nánar hér á heimasíðu hlaupsins: http://marathon.is/kort-og-leidhir/truflun-a-umferdh

Allar hlaupaleiðir í Miðnæturhlaupi Suzuki eru mældar samkvæmt AIMS, sem eru alþjóðleg samtök götuhlaupa, og viðurkenndar af Frjálsíþróttasambandi Íslands. Hlaupið er hluti af Powerade Sumarhlaupunum 2017 og gildir til stiga á mótaröðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert