UFC er handan við hornið

Sunna fyrir bardagann í nótt.
Sunna fyrir bardagann í nótt. Ljósmynd/Invicta

„Það var ofboðslega gaman að vera þarna, það er mikil stemning í kringum þetta. Ég náði nokkrum fellum og var að boxa við hana líka. Hún má eiga það að hún er mjög sterk eins og ég reiknaði með. Hún var hörð í horn að taka,“ sagði bardagakonan Sunna Rannveig Davíðsdóttir í samtali við mbl.is í dag. 

Sunna barðist við hina bandarísku Kelly D'Angelo í blönduðum bardagalistum á Invicta FC 24-kvöldinu í gær. Sunna vann öruggan sigur og vann allar þrjár loturnar. Hún þakkaði hnefaleikakonunni Valgerði Guðsteinsdóttur, muay thai-konunni Sunnu Wiium og þeim Jinh Yu Frey og Joanne Calderwood, sem keppa einnig í blönduðum bardagalistum. Þær eru miklar og góðar vinkonur og hjálpast að fyrir bardaga. 

Draumur að fá að æfa með þeim

„Þær koma sterkar inn; Valgerður, Sunna Wiium, Jinh Yu Frey og Jo Jo (Joanne Calderwood), ég er heppin að hafa margar stelpur sem eru að hjálpa mér og það er draumur að fá að æfa með þeim.“

Sunna Rannveig, örfáum mínútum áður en hún barðist við Kelly …
Sunna Rannveig, örfáum mínútum áður en hún barðist við Kelly D'Angelo í nótt. Ljósmynd/Bjarki Þór Pálsson

Það vakti athygli að Sunna gekk inn í búrið í íslensku landsliðstreyjunni. Kvennalandsliðið í knattspyrnu gaf henni treyjuna. 

„Landsliðsstelpurnar komu í heimsókn á æfingu í Mjölni og ég og dóttir mín hittum þær, þær voru æðislegar. Þær gáfu okkur báðum mjög mikla hvatningu og mér spark í rassinn fyrir bardagann. Við fengum hvor sína treyjuna og þegar ég fékk mína var það fyrsta sem ég hugsaði að mig langaði til þess að labba inn í búrið í henni. Það vissi þetta enginn nema ég; ég ætlaði að koma fólki á óvart. Ég er vön að labba inn í Mjölnistreyju en ég vildi sýna landsliðinu stuðning og eins landi og þjóð. Ég ætla að halda vel utan um þessa treyju, hún mun hanga með verðlaunagripunum mínum. Mér þykir virkilega vænt um hana.

Ótrúlega stolt af landsliðinu

Ég var búin að sjá fyrir mér að þegar ég ynni bardagann myndi ég gefa landsliðinu pepp í viðtalinu eftir á, en það gleymdist að rétta mér treyjuna og ég gleymdi að nefna þær í viðtalinu. Þetta gerðist allt svo hratt og um leið og ég var komin úr búrinu langaði mig að hlaupa aftur inn og taka í hljóðnemann,“ sagði hún hlæjandi. „Vonandi náði ég hins vegar að vekja athygli á landsliðinu með því að labba inn í treyjunni, ég er ótrúlega stolt af þeim og þær gáfu mér styrk. Þær eru ótrúlega flottar fyrirmyndir og ég hef fulla trú á þeim. Þær geta farið alla leið og ég er að springa úr stolti.“

Það fór vel á með Sunnu og kvennalandsliðinu.
Það fór vel á með Sunnu og kvennalandsliðinu. Ljósmynd/Sóllija Baltasardóttir

Sunna glímdi við ýmis meiðsli fyrir bardagann og þarf að hvíla hægri hönd sína í einhvern tíma. 

„Það voru gömul meiðsli í rifbeinunum sem tóku sig upp og ég endaði á lyfseðilsskyldum lyfjum vegna þess. Svo var ég á sýklalyfjum vegna magavesens. Hnefinn á hægri hendi var svo orðinn slæmur. Ég var farin að þurfa að taka hanskana af mér svo ég myndi eftir að vera ekki að kýla með hægri hendinni. Hnefinn var orðinn það slæmur að ég get ekki notað hann nema rétt svo til að hreyfa mig rétt. Það kom svo upp í annarri lotu í bardaganum að hann var ekki í lagi. Maður gefur auðvitað 100% í öll högg í svona bardaga og því er ég komin í spelku núna. Ég fór beint upp á spítala en læknarnir sáu ekki brot, en ég fer í aðra myndatöku eftir tvær vikur. Það er búið að vera mikið álag á hendinni og ég hef eiginlega ekkert hvílt hana síðan í síðasta bardaga, nú þarf ég að hvíla enda er þetta verkfærið mitt.“

Nefið á mér fullt af blóði í annarri lotu

„Nefið á mér var líka búið að vera að stríða mér því ég var að æfa með Jo Jo og hún er með rosalega hægri hönd. Trýnið á mér var orðið laskað og það opnaðist fyrir það í annarri lotu. Í annarri og þriðju lotu varð ég að anda í gegnum munninn því nefið var svo stíflað, það fylltist allt af blóði.“

Hún segist ætla að verða enn betri og bæta það sem bæta þarf. Hún er mjög brött fyrir framhaldið. 

Sunna ásamt Kelly D'Angelo eftir bardagann í nótt.
Sunna ásamt Kelly D'Angelo eftir bardagann í nótt. Ljósmynd/Bjarki Þór Pálsson

 „Hún meiddi mig ekki mikið í bardaganum, ég er alveg heil, fyrir utan höndina á mér sem ég hef verið að níðast á sjálf. Ég er þannig gerð að ég æfi frekar of mikið en of lítið. Ég þarf stundum að læra að hægja aðeins á mér, ég ætla að leyfa þessu aðeins að jafna sig núna áður en ég byrja að vinna aftur. Það er ýmislegt sem mig langar að vinna í og ég mun geta gert það án þess að nota höndina eða láta kýla mig á trýnið. Ég ætla að byrja að vinna í sprengikraftinum og í ágúst mun ég fara í það. Þegar höndin er komin í lag byrja ég aftur að vinna í því sem ég get bætt. Ég er hörð við sjálfa mig; skoða bæði það sem ég geri vel og líka það sem ég get lagað. Ég var svolítið í því að skoða það sem ég gerði vitlaust en ég sé að ég geri margt betur. Ég get hins vegar enn lagað margt og ég á mikið inni, ég get bætt mig heilan helling. Í næsta bardaga munuð þið sjá enn betri, sterkari og tæknilegri Sunnu.

Langaði rosalega að klára þennan bardaga

Mig langaði rosalega að klára þennan bardaga til að sýna að ég geti klárað bardaga. Þetta var öruggur sigur og það gleður mig en ég á það enn eftir að klára bardaga í Invicta. Ég veit ég get klárað bardaga, hvort sem það er standandi eða í gólfinu. Það getur verið hættulegt að skilja þetta eftir í höndunum á dómurunum og sérstaklega eins og í gær; þá var ég á móti heimakonu. Ég finn samt sem áður að ég er búin að fá heimafólkið á mitt band, ég fæ rosalega mikinn stuðning úti, þótt hún hafi verið heimakona.“

Sunna gengur inn í búrið í nótt.
Sunna gengur inn í búrið í nótt. Ljósmynd/Invicta

Hvað tekur við hjá Sunnu? Ætlar hún sér að komast í UFC, stærstu bardagasamtök heims? 

„Mig dreymdi um að komast í Invicta siðan 2013 og ég er nýkomin í sambandið. Ég tók minn fyrsta bardaga í september á síðasta ári og annan í mars og svo þriðja í júlí, það er minna en ár síðan ég komst í Invicta, ég er hvergi nærri hætt þar. Ég ætla að njóta þess sem er á meðan það er og ef það breytist og það kemur kall frá UFC, þá fylgi ég því. Ég ætlast ekki til þess að það verði breytingar en ef þær koma, þá tek ég því fagnandi. Það er hins vegar æðislegt að berjast fyrir Invicta, þar er góður andi og mér líður vel. UFC er handan við hornið og ég á eftir að prófa það líka, hvort sem það verður í næsta bardaga eða eftir að ég vinn titil í Invicta, það kemur í ljós. Ég er með rosalega opinn hug gagnvart þessu.“

Sunna vildi koma þökkum á framfæri og greinilegt að hún er mjög ánægð með þann stuðning sem hún fær. 

Ísland, Ísland, áfram Ísland, alla leið

„Mig langar að þakka öllum heima fyrir að fylgjast með, þetta gerir mikið fyrir okkur bardagafólkið. Þetta er nýtt fyrir fólk og það er æðislegt að vera brautryðjandi og þegar fólk fylgist með gefur það mér mikinn styrk. Ég er rosalega þakklát í hjartanu fyrir allan þann stuðning sem ég fæ, ég gæti ekki beðið um meira. Ísland, Ísland, áfram Ísland, alla leið,“ sagði hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert