Endurtók undirbúninginn vegna jarðskjálfta og vann brons

Thelma Björg Björnsdóttir tekur við verðlaunagripnum sem íþróttakona ársins hjá …
Thelma Björg Björnsdóttir tekur við verðlaunagripnum sem íþróttakona ársins hjá Íþróttasambandi fatlaðra. mbl.is/Eggert

Thelma Björg Björnsdóttir úr ÍFR er vel að því komin að hafa í dag verið útnefnd íþróttakona ársins úr röðum fatlaðra í fjórða sinn. Hún segir árangurinn á HM í Mexíkó nú í desember standa upp úr.

„Það að hafa unnið til bronsverðlauna í 100 metra bringusundi á HM stóð upp úr. Það var mjög góð tilfinning,“ sagði Thelma við mbl.is á hófi Íþróttasambands fatlaðra á Hótel Sögu í dag. Hún tók undir að það hefði vissulega gert undirbúninginn fyrir HM aðeins erfiðari að mótinu var frestað vegna jarðskjálftanna í Mexíkó í september, en um tíma var útlit fyrir að hætta þyrfti hreinlega við mótið.

„Það var svolítið erfitt. Maður var búinn að æfa sig fyrir þetta þegar þessi jarðskjálfti kom, og þurfti svo eiginlega að endurtaka allt aftur. En það gekk vel,“ sagði Thelma, sem einnig setti tvö heimsmet á árinu, í 25 metra laug, í 800 metra skriðsundi og 200 metra baksundi. Þess vegna segir hún árið hafa verið sérstaklega gott, jafnvel í samanburði við árin 2013-2015 þegar hún hlaut einnig nafnbótina. En hvað með árið 2018?

„Þá ætla ég að reyna að vinna til verðlauna á Evrópumeistaramótinu á Írlandi, sem fram fer í ágúst,“ segir Thelma, full bjartsýni um að það takist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert