Daly íhugar að fara í mál

John Daly er gríðarlega vinsæll í Bandaríkjunum og víðar.
John Daly er gríðarlega vinsæll í Bandaríkjunum og víðar. Reuters

Bandaríski kylfingurinn John Daly hefur á undanförnum vikum hugleitt það að fara í mál við eigendur Palm Beach Gardens golfvallarins í Bandaríkjunum. Daly slasaðist í keppni á PGA-mótinu Honda Classic sem fram fór á vellinum á síðasta ári þegar hann tognaði illa.

Kylfingurinn hætti við að slá boltann í miðri aftursveiflu þegar áhorfandi fór að taka myndir af Daly. Að mati Daly og lögfræðings hans hafði þessi atburður mikil áhrif á fjárhag kylfingsins.

„Ég gat ekki leikið á 12 mótum vegna meiðsla og styrktaraðilar hættu samstarfi við mig í kjölfarið. Það verður erfið ákvörðun að fara í mál við eigendur vallarins en það eru helmingslíkur á því að ég fari með málið alla leið,“  sagði Daly í gær en hann er í 553. sæti heimslistans og þarf að stóla á boð frá styrktaraðilum á PGA-mótaröðinni.

Hann getur hinsvegar alltaf tekið þátt á Opna breska meistaramótinu og PGA-meistaramótinu sem fyrrum sigurvegari á þeim stórmótum.  Hann hefur fimm sinnum sigrað á PGA-mótaröðinni en sá síðasta var á Buick meistaramótinu árið 2004.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert