Birgir: „Ég sá ekki línuna í síðasta púttinu vegna myrkurs“

Birgir Leifur Hafþórsson.
Birgir Leifur Hafþórsson. Reuters

„Þetta var langur dagur hjá okkur og það gekk allt frekar hægt fyrir sig úti á vellinum. Það var mikið um bið og það tók á taugarnar og þolinmæðina að halda einbeitingu. Ég er mjög sáttur við að hafa náð í gegnum niðurskurðinn,“  sagði Birgir Leifur Hafþórsson atvinnukylfingur eftir að hafa leikið á 1 höggi undir pari á öðrum keppnisdegi Estorial meistaramótsins á Evrpópumótaröðinni í Portúgal.

Birgir er samtals á 3 höggum undir pari eftir að hafa leikið á 69 og 70 höggum á fyrstu tveimur dögunum og er hann í 51.-61. sæti af alls 156 kylfingum sem hófu keppni.

„Það var frekar erfitt að sjá boltann á lokaholunni þar sem að sólin var sest og birtu farið að bregða. Ég sá ekki línuna í síðasta púttinu vegna myrkurs og þetta var hálfgert rugl allt saman,“ bætti Birgir við.

Hann sagði að flatirnar á Oitavos Dunes vellinum hafi verið erfiðari í dag en í gær.

Ánægður með púttin 

„Það er alltaf erfitt að vera í síðasta ráshópnum á öðrum keppnisdegi þar sem að 153 kylfingar hafa traðkað niður flatirnar áður en þú kemur inn á þær. Ég var því mjög ánægður með hvernig ég var að pútta. Í gær var ég „heitari“ á pútternum en ég setti niður nokkur góð pútt í dag eftir að hafa klúðrað tveimur stuttum púttum á 2. og 3. flöt. Aðstæður voru hinsvegar mjög góðar í dag fyrir alla keppendur. Það var ekki mikið rok í dag en það er mjög óvenjulegt á þessu svæði og ég á von á því að vindurinn verði í aðalhlutverki á næstu tveimur dögum,“ sagði Birgir Leifur Hafþórsson.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert