Spieth: Ánægður en samt svekktur

Bubba Watson og Jordan Spieth takast í hendur í mótslok …
Bubba Watson og Jordan Spieth takast í hendur í mótslok í gærkvöld. AFP

Hinn tvítugi Jordan Spieth sló í gegn á Masters-mótinu í golfi fyrir frábæra frammistöðu en hann hafnaði í 2.-3. sæti, þremur höggum á eftir Bubba Watson, eftir að hafa verið í forystuhlutverkinu um tíma á Augusta-National vellinum.

Spieth keppti á sínu fyrsta Masters-móti og var í seilingarfjarlægð við það að slá met Tigers Woods og verða yngsti kylfingurinn frá upphafi til að fagna sigri þar.

„Ég var stressaður en naut þess að spila. Þetta var frábært. Ég er afar ánægður með vikuna, ánægður með þau skref sem ég hef þegar tekið á þessu ári. Mér hefur þegar tekist að ná einu af markmiðum ársins, að komast í baráttuna á risamóti og sýna hvað ég get. Vonandi tekst mér að fylgja þessu eftir, það eru þrjú risamót eftir á árinu," sagði Spieth við fréttamenn í mótslok.

Hann leyndi þó ekki vonbrigðum sínum yfir því að hafa ekki náð að sigra fyrst honum tókst að ná þetta langt.

„Ég er afar ánægður en samt dálítið svekktur einmitt núna. Nú hugsa ég bara um að koma hingað aftur. Það er mér efst í huga því þetta er dálítið sárt. Ég hef auðvitað stefnt að því lengi að vera efstur í Augusta á sunnudegi og þó þetta sé mjög snemma á mínum ferli og ég veit að ég fæ fleiri tækifæri, er þetta svekkjandi. Ég var með allt í mínum höndum og hefði getað fylgt því eftir en mér tókst ekki að afgreiða púttin nógu vel og það réð úrslitum," sagði Spieth.

„En mér finnst ég geta tekið mörg tonn af jákvæðum hlutum með mér úr þessu móti. Mér finnst ég vera tilbúinn til að vinna stórmót, það er bara tímaspursmál," sagði Bandaríkjamaðurinn ungi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert