Ólafía: Skemmtilegasta mót ársins

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR er með tveggja högga forskot fyrir lokahringinn á Íslandsmótinu í golfi sem fram fer á Leirdalsvelli um helgina. Ólafía lék á 74 höggum í dag og er samtals á sjö höggum undir pari. Blaðamaður tók viðtal við hana við sjálfan Íslandsmeistarabikarinn eftir hringinn og því lá beinast við að spyrja hvort hún ætlaði ekki að taka hann á morgun.

„Vonandi getur maður það. Þetta var ágætt í dag, hefði getað verið bæði betra og verra. Það duttu ekki alveg nógu mörg pútt hjá mér. Vonandi dettur þetta allt á morgun,“ sagði Ólafía við mbl.is, en hún fór beint á æfingasvæðið eftir þriðja hring í dag til þess að fínpússa púttin.

Það var milt og gott veður á þriðja degi í dag eftir vætutíð fyrstu tvo hringina. Hún segist ánægð með mótið. „Það eru hlutar sem eru blautir en mest allt er mjög fínt. Þetta er skemmtilegasta mót ársins. Umgjörðin er mjög góð, það er matartjald og við fáum að hita upp á grasi sem er sjaldséð á Íslandi,“ sagði Ólafía himinsæl, en nánar er rætt við hana í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert