Glæsileg frammistaða hjá Ólafíu

Ólafía Þórunn býr sig undir að pútta í Abu Dhabi …
Ólafía Þórunn býr sig undir að pútta í Abu Dhabi í dag. Ljósmynd/ladieseuropeantour.com

Kylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir heldur áfram að gera frábæra hluti á FBM-mótinu í golfi í Abu Dhabi, en mótið er hluti af Evrópumótaröðinni sem er önnur sterkasta mótaröð heims.

Ólafía, sem var með forystu eftir fyrsta daginn í gær sem hún lék á 65 höggum, eða 7 höggum undir pari, lauk við að spila annan hringinn eftir hádegi í dag. Hún lék hann á 66 höggum og er samtals á 13 höggum undir pari. Frábær árangur. Hún fékk sjö fugla á hringnum í dag, fór tíu holur á pari og fékk skolla á einni holu.

Ólafía hefur þriggja högga forskot á fjóra kylfinga sem koma næstir á 10 höggum undir parinu. Georgia Hall frá Englandi er ein þeirra, en hún lék best allra í dag, á 64 höggum, 8 höggum undir pari.

Íslandsmeistarinn verður því áfram í eldlínunni í Abu Dhabi, en þar sem hún komst í gegnum niðurskurðinn spilar hún tvo hringi til viðbótar.

Skorkort Ólafíu má sjá hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert