Þurfti hjálp upp úr rúminu

Tiger Woods.
Tiger Woods. AFP

„Mér mun aldrei líða frábærlega aftur,“ sagði kylfingurinn Tiger Woods á dögunum. Ástæðuna segir Woods vera þau fjölmörgu meiðsli sem hann hefur orðið fyrir á ferlinum en á honum hefur Woods unnið fjórtán risamót.

Woods dró sig úr keppni fyrir annan hring Dubai Desert-mótsins í þessum mánuði vegna vöðvakrampa í baki, en hann sneri aftur á golfvöllinn í desember eftir tvær aðgerðir á baki.

„Það komu oft tímar þegar ég hélt að ég myndi aldrei snúa aftur. Þetta var erfitt, þetta var hrottalegt. Það komu oft tímar þegar ég þurfti að fá hjálp til þess að komast úr rúminu,“ sagði Woods við Dubai Magazine.

Woods sneri aftur í keppnisgolf eftir 15 mánaða fjarveru í desember þegar hann keppti á móti á PGA-mótaröðinni á Bahamaeyjum þar sem hann lenti í 15. sæti af 18 keppendum. Woods vonast þó til þess að taka þátt á Masters-mótinu á Augsta-vellinum 6. til 9. apríl.

„Ég hef margoft hugsað það að ég muni aldrei spila aftur á afreksstigi,“ sagði Woods, en hann hefur unnið 79 mót á PGA-mótaröðinni.

„Mér líður vel, ekki frábærlega. Ég held að mér muni aldrei líða frábærlega aftur eftir þrjár bakaðgerðir og fjórar hnéaðgerðir,“ sagði Woods.

„Ég verð alltaf aðeins aumur. En svo lengi sem ég virka almennilega er ég sáttur,“ sagði Woods.

Woods vann síðast golfmót árið 2013 en síðasti sigur hans á risamóti var árið 2008.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert